Heimafrjóvgun

02.02.2015

Sæl. Ég og kærastinn minn erum að huga að barneignum. En við eigum þó við eitt vandamál að stríða, hann á í erfiðleikum með að fá það inn í mig og hefur alltaf átt í erfiðleikum með það. Ég er búin að leita mikið að svörum á netinu en finn ekkert um þetta á íslensku. En á netinu er hægt að fá svokallað "insemination kit" til þess að koma sæðinu inn í leggöngin heima hjá sér. Er þetta öruggt? Er hægt að kaupa bara sprautu og sterílt glas í apóteki og nota það? Gætum við skaðað sæðið og þar með barnið með þessu?


Sæl og blessuð, einfaldasta og ódýrasta leiðin er að fá sér sprautu með stóru gati (ekki með nál). Hægt er  að kaupa hana í apóteki. Ég veit ekki alveg í hvaða stærðum hún er en það er þægilegra að hafa langa sprautu því að sæðið kemst þá nær leghálsinum. Þið getið ekki skaðað neitt því að ef sæðið skemmist verður ekki frjóvgun. Svo er um að gera að kortleggja hvenær egglosið er (blæðingar byrja alltaf 14 dögum eftir egglos) ef þú ert með reglulegan tíðahring er ekki erfitt að finna út úr því og svo endurtaka þetta nokkrum sinnum í kring um egglosið. Sumar konur setja púða undir rassinn til að sæðið renni betur inn og liggja í dálitla stund eftir að sæðinu er sprautað inn. Það er einfaldast að byrja svona og sjá hvað gerist. Ef þetta gengur ekki verður bara að endurskoða málið. Gangi ykkur vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
2.feb.2015