Spurt og svarað

02. febrúar 2015

Heimafrjóvgun

Sæl. Ég og kærastinn minn erum að huga að barneignum. En við eigum þó við eitt vandamál að stríða, hann á í erfiðleikum með að fá það inn í mig og hefur alltaf átt í erfiðleikum með það. Ég er búin að leita mikið að svörum á netinu en finn ekkert um þetta á íslensku. En á netinu er hægt að fá svokallað "insemination kit" til þess að koma sæðinu inn í leggöngin heima hjá sér. Er þetta öruggt? Er hægt að kaupa bara sprautu og sterílt glas í apóteki og nota það? Gætum við skaðað sæðið og þar með barnið með þessu?

Sæl og blessuð, einfaldasta og ódýrasta leiðin er að fá sér sprautu með stóru gati (ekki með nál). Hægt er  að kaupa hana í apóteki. Ég veit ekki alveg í hvaða stærðum hún er en það er þægilegra að hafa langa sprautu því að sæðið kemst þá nær leghálsinum. Þið getið ekki skaðað neitt því að ef sæðið skemmist verður ekki frjóvgun. Svo er um að gera að kortleggja hvenær egglosið er (blæðingar byrja alltaf u.þ.b. 14 dögum eftir egglos) ef þú ert með reglulegan tíðahring er ekki erfitt að finna út úr því og svo endurtaka þetta nokkrum sinnum í kring um egglosið. Gott er að liggja í dálitla stund eftir að sæðinu er sprautað inn. Það er einfaldast að byrja svona og sjá hvað gerist. Ef þetta gengur ekki verður bara að endurskoða málið. Gangi ykkur vel. 

Bestu kveðjur, Áslaug V. , ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í janúar 2020
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.