Hlaupabólan - bólusetning?

14.01.2015

Halló!
Ég og maðurinn minn ætlum okkur að reyna eignast barn, eftir að vinkona mín sagðist hafa þurft að fara í bólusetningu gegn rauðum hundum fyrir meðgöngu fór ég að hugsa hvort það væri nauðsynlegt fyrir mig að fara í bólusetningu gegn hlaupabólunni? Það er ekki víst að ég hafi fengið hana sem barn og þar sem ég umgengst mikið af börnum dagsdaglega vil ég ekki vilja taka sénsinn á neinu :) bestu kveðjur

 
Sæl vertu,
Rauðir hundar geta valdið fósturskemmdum og því er nauðsynlegt að vera bólusettur gegn þeim. Í fyrstu skoðun í mæðravernd er athugað hvort að mótefni mælist gegn rauðum hundum.  Í ungbarnavernd er bólusett gegn þeim við 18 mánaða aldur og aftur við 9 ára aldur. Varðandi hlaupabóluna er líklegt að þú sért búin að fá hana, flestir fullorðnir hafa fengið hana. Það er sjaldgæft að smitast af hlaupabólu á meðgöngu. Bresk rannsókn sýnir að 0.3% þungaðra kvenna þar fá hlaupabólu og í langflestum tilfellum er það hættulaust. Þó getur hlaupabóla á meðgöngu orsakað einkenni, svolítið misjafnt eftir því á hvaða tímabili smitið verður. Þú getur því látið bólusetja þig til að vera alveg viss eða beðið um mótefnamælingu og farið eftir henni í sambandi við bólusetningu. Læt fylgja slóð með umfjöllun um hlaupabólu.

http://www.ljosmodir.is/?Page=FAQ&ID=615&Cat=2

Gangi þér vel og bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
14.jan.2015