Hve lengi varir egglos?

07.03.2007

Sælar!

Ég hef notað egglosmæli til að vita hvenær egglos er. Ég mæli mig á hverjum morgni á líklegu tímabili og þegar prófið er jákvætt reyni ég að verða þunguð. Ég hef heyrt að sæði geti lifað í 48 klukkustundir innan líkama konunnar en hvergi fengið upplýsingar um hversu langur tíminn er frá því að egg fer af stað og þar til sæði hefur misst af því. Þarf sæðið að vera komið á staðinn fyrir egglosið eða er nóg að reyna um morguninn sem egglosmælirinn sýnir jákvætt próf? Hvað með að kvöldi þess dags, er það of seint?

Með von um svör.

Fyrirfram þakkir og bestu kveðjur.Sæl og blessuð!

Það er rétt sem þú hefur heyrt að sæði getur lifað í u.þ.b. 48 klukkustundir í líkama konunnar. Eftir egglos er konan frjó í 10-15 klukkustundir. Til þess að þungun geti orðið þarf því sæði að komast inn í leggöng 48 tímum fyrir egglos eða innan 15 tíma eftir egglos. Þetta eru einungis viðmiðunartölur og auðvitað getur líftími sæðisfruma og eggfruma verið eitthvað breytilegur.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. mars 2007.