Spurt og svarað

20. apríl 2005

Hvenær var egglos?

Sæl aftur og takk fyrir þau góðu svör sem ég hef áður fengið frá ykkur.

Ég er búin að vera að velta því mikið fyrir mér hvenær ég hafi egglos. Þannig er málið að það eru yfirleitt 34-36 dagar á milli blæðinga hjá mér. Ég hef reyndar verið frekar óregluleg og stundum misst úr einn tíðahring. Nú var ég síðast á blæðingum 19. júlí 2004. Hélt ég mundi þá byrja um 23.-25.ágúst en byrjaði aldrei. Tók ég svo þungunarpróf 15.09.2004 og var það jákvætt (gerði það svo seint því ég er búin að reyna mikið að verða ólétt, glasa og aldrei gengið). Fór ég þá í sónar til að athuga hvort um utanlegs væri að ræða. Svo reyndist ekki, sem betur fer. Læknirinn segir við mig að ég sé komin 8 vikur og 4 daga þann 16.09.2004. Í 19.vikna sónarnum segja þær að ég sé komin 4 dögum styttra en fyrri greining. Samkvæmt þessu ætti ég þá að hafa haft egglos rétt fyrir 19.08.2004. Finnst mér það alveg geta verið, því mig hefur grunað að ég hafi egglos rétt áður en ég á að byrja á blæðingum aftur. Samt hef ég lesið að egglos sé ALLTAF 14 dögum fyrir blæðingar. Getur ekki verið misjafnt hvenær egglos er eða var þetta elsku barn getið fyrr, sem sagt um 09.08.2004? Með von um svör.

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Gulbústímabilið (luteal phase) hefst strax að loknu egglosi og endar þegar blæðingar hefjast, ef ekki hefur orðið frjóvgun. Gulbústímabilið er talið vera 13-15 daga og þess vegna er sagt að egglos sé u.þ.b. 14 dögum fyrir blæðingar. Það er erfitt að segja til um hvenær getnaður hefur átt sér stað sérstaklega þar sem þú hefur haft óreglulegar blæðingar. En líklegast hefur það verið um 9. ágúst miðað við 19 vikna sónarinn.

Kveðja, Anna Sigríður Vernharðsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í desember 2019

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.