Jákvætt þungunarpróf en...

07.07.2004

Þannig er að lykkjan var tekin í byrjun apríl og ég hafði blæðingar í lok apríl.  Það kom síðan smá blóðlituð útferð hjá mér um miðjan maí.  Ég fékk jákvætt þungunarpróf fyrir 3 vikum síðan en síðan kom smá blæðing (eins og gamalt blóð) frá mér viku seinna, þetta stóð yfir í sólarhring.  Ég tók síðan þungunarpróf í morgun, sem kom mér í opna skjöldu því það var neikvætt.  Ég tek það skýrt fram að það hafa ekki orðið nein breyting á líðan minni, ógleði, aum brjóst (þau hafa stækkað um heila skálastærð, þrútin og æðarnar mjög greinilegar) ofl.  Ég á fyrir 3 börn þannig að ég tel mig þekkja líkama minn vel.  Hvað í ósköpunum er eiginlega í gangi?

Með fyrirfram þökk

......................................................................

Sæl og blessuð

Fyrst þú fékkst jákvætt þungunarpróf fyrir þremur vikum þá hefur þú sennilega orðið ófrísk um miðjan maí fyrst þú varst með blæðingar í lok apríl. Hormónið sem er mælt í þungunarprófunum nær hámarki í líkama þínum um á milli 8 og 10 viku (miðað við fyrsta dag síðust blæðinga) en fer síðan hratt minnkandi, og nær lágmarki við 20  viku og helst stöðugt eftir það. Það er því hugsanlegt að þungunarpróf sé neikvætt þó að kona sé þunguð ef prófið er tekið þegar meðgangan er komin þetta langt.

Stundum kemur smá blæðing eða blóðug útferð þegar bólfesta á sér stað en það er tveim vikum eftir að frjóvgun verður, eða um það leyti sem blæðingar ættu að koma. Blóðuga útferðin og gamla blóðið sem þú lýsir passar ekki alveg við það. Ég verð þó að taka það fram að það er erfitt fyrir mig að reikna þetta út nákvæmlega þegar ég hef ekki nákvæmari dagsetningar.

Þegar þungunar próf eru tekin ætti að nota fyrsta morgunþvag því magn hormónsins er mest í þvagi þá. Ef prófið er rétt tekið og þú ert viss um að síðustu blæðingar hafi byrjað í lok apríl þá ættir þú að fá jákvætt svar núna ef þú ert þunguð ennþá.

Það er erfitt fyrir mig að segja til um hvað er í gangi hjá þér, en þú ættir nú sennilega að ráðfæra þig við lækni ef þú ert áfram óörugg um hvað er að gerast.

Kær kveðja,                                                                                
Halla Björg Lárusdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir -  7 júlí 2004.