Spurt og svarað

14. maí 2006

Keiluskurður

Ég er búin að fara í keiluskurð og mig langar að vita hvernig það er með barneignir eftir aðgerðina. Ég hef heyrt svo mikið um að það séu miklar líkur á fósturláti og erfiðari fæðingar og fleira. Er erfiðara að verða óléttur eftir keiluskurð?

Mig langaði líka að forvitnast með kynlífið. Það er núna komið ár síðan ég fór í aðgerðina. Ég fór eftir læknisráði og fór ekki að stunda kynlíf fyrr en mánuði seinna eins og hann mælti með. Getur verið að þessi aðgerð valdi kyndeifð? Þurrk í leggöngum? Núna
á ég frekar erfitt með að stunda kynlíf, hef ekki mikinn áhuga vegna verkja sem ég fæ.

Með von um svar.
kv. ein stressuð yfir þessu öllu saman.

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.
  
Keiluskurður hefur engin áhrif á það hversu auðveldlega þú verður ófrísk. Það hversu mikið er tekið af leghálsinum getur haft einhver áhrif á hitt en það þarf þó ekki að vera.  Ef mjög mikið er tekið af leghálsinum getur það veikt hann þannig að hann haldist ekki eins vel lokaður á meðgöngunni, en ég held að þér hefði örugglega verið sagt frá því ef svo mikið hefur verið tekið af honum. Hvað fæðingu varðar er það mjög misjafnt hvort þessi aðgerð hefur einhver áhrif. Einstaka sinnum gengur útvíkkun aðeins hægar fyrir sig vegna þess að leghálsinn er stífur eftir aðgerðina en oft finnur maður engan mun á leghálsi sem hefur farið í svona aðgerð og eðlilegum leghálsi.
 
Hvað kynlífið varðar hefur keiluskurður engin líkamleg áhrif önnur en þau að það getur verið að þú blotnir ekki eins þar sem slímkirtlarnir eru í leghálsinum en ekki í leggöngunum sjálfum. Andlegar afleiðingar keiluskurðar geta verið flóknari og haft áhrif á löngun þína til kynlífs. Ef þú færð verki við kynmök er ráð að breyta um stellingar og nota sleipiefni og sjá hvort það breytir einhverju.
 
Vona að þetta svari spurningum þínum en annars ráðlegg ég þér að tala við lækni um þetta.
 
Gangi þér vel.
Rannveig B. Ragnarsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í janúar 2020
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.