Kvensjúkdómalæknir...

08.08.2007

Mig langar bara að forvitnast...

...ættu allar konur á barneignaraldri (sem eru farnar að huga að barneignum) að hafa farið til kvensjúkdómalæknis?  Við erum búin að vera getnaðarvarnalaus í 1½ ár en höfum verið að reyna „skipulega“ í 3 mánuði án árangurs. Ég hef aldrei farið til kvensjúkdómalæknis nema bara í krabbameinsskoðun. Myndir þú mæla með því að ég léti skoða mig eða á ég að bíða lengur? Ætti ég fyrst að láta skoða mig bara eða ætti ég að taka manninn minn með?

Með þökk fyrir góðan vef og von um skjót svör.


Sæl og blessuð! Takk fyrir að leita til okkar!

Það er í sjálfu sér ekki nauðsynlegt að fara til kvensjúkdómalæknis reglulega nema í krabbameinsskoðun en margar konur leita þó til kvensjúkdómalækna varðandi getnaðarvarnir og svo auðvitað ef einhver vandamál koma upp. Ef þú ætlar að leita til læknis vegna hugsanlegrar ófrjósemi er nærtækast að þú pantir tíma hjá Art Medica en þar eru kvensjúkdómalæknar sem sérhæfa sig rannsóknum og meðferðum við ófrjósemi. Þegar orsakir ófrjósemi eru kannaðar þarf að skoða bæði konuna og manninn þannig að það er eðlilegt að þið farið saman þangað.

Gangi ykkur vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. ágúst 2007.