Kviðslit eftir meðgöngu

28.01.2008

Komiði sælar og hjartans þakkir fyrir frábæran vef - ég les hann reglulega mér til fróðleiks. Mig langar að spyrja að einu. Eftir meðgöngu eldra barnsins míns var ég með kviðslit fyrir ofan nafla (ca. hálfum cm ofan nafla) sem ég þurfti að láta laga. Eftir meðgöngu yngra barnsins er ég nú með bungu innan í naflanum sem ég var ekki með áður. Þessi bunga veldur mér ekki óþægindum (ég fann til í fyrra skiptið). Þarf maður alltaf að láta laga svona?  Er æskilegt að ég geri það áður en ég geng aftur með barn eða skiptir það ekki máli. Er algengt að konur fái kviðslit af því að ganga með? Fyrst þetta er búið að gerast tvisvar á mér, get ég þá ekki gert ráð fyrir því að þetta muni gerast næst líka...?

Bestu kveðjur, V.


Komdu sæl V.

Eftir því sem ég best veit ráðleggja flestir læknar fólki að láta laga kviðslit því það getur stækkað með tímanum og farið að valda óþægindum.  Mér finnst rökrétt að halda að þetta mundi stækka á meðgöngu en ég ráðlegg þér að tala um þetta við lækni og þá helst áður en þú verður ólétt aftur svo hægt sé að laga þetta fyrir þungun ef þarf. 

Þú ert greinilega með viðkvæman kviðvegg þar sem þetta hefur gerst tvisvar hjá þér og því getur þú átt á hættu að þetta gerist aftur en það er auðvitað ekki öruggt.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
28. janúar 2008.