Kynmök og egglos

15.11.2010

Sælar ljósmæður.

Þannig er mál með vexti að við hjónin erum að reyna að verða ólétt,erum búin að reyna í þó nokkra mánuði. Fyrir eigum við 2 stráka sem komu mjög fljótt undir. Ég er að nota egglosmæli til að reyna að hámarka árangurinn, en svo hef ég verið að lesa mér til um þetta og fæ mjög misvísandi upplsýngar hvenær best er að stunda kynmök í kringum egglosið.  Sumir segja að maður eigi að reyna nokkrum dögum fyrir egglos, sumir segja að það megi alls gera stunda of mikið kynlíf á meðan egglosið sjálft er í gangi og aðrir segja að maður eigi að stunda kynlíf eftir egglosið.  Ég er satt best að segja orðin alveg rugluð í þessu öllu sman og langar að fá frá fagfólki hvernig árangursríkast er að haga þessum málum.  Getur í alvörunni verið hægt að stunda of mikið kynlíf á meðan egglos á sér stað?

Með von um svar,ein rugluð 


Sæl

Nei það er ekki hægt að stunda of mikið kynlíf!  Tíminn sem þú ert hvað frjóust er í kringum og á meðan egglos á sér stað.  Sæðisfrumur geta lifað í nokkra daga og því er fínt að stunda kynmök ca 2-3 daga fyrir egglos.  Eggið lifir svo líka í nokkra daga eftir að egglos verður og því er gott að stunda kynmök nokkra daga eftir að egglos verður.  Að sjálfsögðu er svo fínt að stunda kynlíf daginn sem egglosið verður því þá ertu örugg um lifandi egg og lifandi sæðisfrumur. 

Það hvort einhver sæðisfruman hittir svo eggið er annað mál og eitthvað sem þú getur ekki stjórnað.

Gangi ykkur vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
15. nóvember 2010