Spurt og svarað

04. ágúst 2005

Langar í barn

Ég er 19 ára og mér og unnusta mínum langar í barn. Ég er búin að vera á pillunni síðastu tvö ár. Ef ég hætti að taka pilluna hvað er þá líklegt að líði langur tími þangað til ég yrði ólétt? áður en ég fór á pilluna var ég með mjög óreglulegar blæðingar, oftast liðu um 2 mánuðir á milli blæðinga stundum minna, oft meira. Gæti þetta tekið langan tíma? Er léleg frjósemi ættgeng? Mamma mín sagðist hafa þurft að bíða lengi eftir að verða ólétt þega hún átti okkur systkinin.

Sæl vertu og þakka þér fyrir fyrirspurnina.
Það verður að koma í ljós þegar þú hættir á pillunni hvernig tíðahringurinn þinn verður. Ef tíðahringurinn er langur hefur maður sjaldnar egglos og því eru tækifærin til að verða ólétt færri. Ef tíðahringurinn helst reglulegur eru góðar líkur á því að þú verðir orðin ólétt innan hálfs árs og yfir 90% likur á að þú verðir ófrísk innan árs (meðaltalið er 4-5 mánuðir fyrir par á aldrinum 20-25 ára).
Oft er talað um að frjósemi sé ættgeng og að sama skapi geri ég ráð fyrir að léleg frjósemi liggi að einhverju leiti í erfðum. Það er þó góðs viti að þú talar um ykkur systkinin, það þýðir að mömmu þinni hefur þó tekist a.m.k. tvisvar að verða ófrísk.  Mundu líka að það þarf tvo til. Léleg frjósemi getur einnig legið hjá karlinum, þeir geta t.d. haft lélega sæðisframleiðslu (fáar sæðisfrumur) eða ,,latt" sæði (lélegir ,,sundhæfileikar" hjá sæðisfrumunum). Líklega er þó ein algengasta ástæða lélegrar frjósemi í dag kynsjúkdómurinn Klamidýa sem stundum getur grafið um sig án mikilla einkenna og valdið skemmdum á innri kynfærunum sem leiðir til ófrjósemi. Því væri e.t.v. ekki úr vegi fyrst þú ert að undirbúa meðgöngu að fara í skoðun (kærastinn þinn líka) og fá prófað fyrir Klamidýu og e.t.v. öðrum kynsjúkdómum, þá er einnig tækifæri til að ræða þessi mál við lækni sem þekkir betur til þinnar/ykkar sögu.
Vonandi fyrirgefurðu mér afskiptasemina en ég get ekki hætt án þess að minnast á aldur þinn. Það er frekar óvenjulegt að svo ungar konur geri áætlun um að verða óléttar. Fyrst að ákvörðun ykkar er svo meðvituð vona ég að þið séuð búin að ígrunda málin vel því eins og sagði í einhverri auglýsingaherferðinni  er foreldrahlutverkið a.m.k. ,,18 ára ábyrgð."  Sú ábyrgð er ekki bara að passa að ekkert slæmt komi fyrir barnið heldur felst einnig í foreldrahlutverkinu t.d. ábyrgð á fjármálum. Það þykir kannski ekkert sérstaklega smart að tala um það en það er mjög dýrt að eignast barn og sá kostnaður minnkar síst með árunum; dagmömmur, leikskólar, tómstundir, bleiur, fæði og klæði o.s.frv.  Þannig að ég vona að þið hafið a.m.k. góða vinnu og húsnæði en ekki síður góðan stuðning fjölskyldnanna ykkar.  Stuðningur þeirra skiptir gífurlega miklu máli þegar nýr ættliður lítur dagsins ljós.
Vegni ykkur sem best,
Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkunarfræðingur,
Yfirfarið í janúar 2020
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.