Spurt og svarað

14. október 2005

Langar í stelpu

Ef okkur hjónin langar í stelpu (eigum tvo frábæra stráka), hvenær í tíðarhringnum á getnaður að eiga sér stað?

...................................................................

Kæra strákamamma!

Takk fyrir að senda fyrirspurn á ljósmóðir.is. Talið er að líftími eggfrumu sé 12-24 klukkutímar en líftími sæðisfrumna sé aftur á móti allt upp í 72 klukkutímar eða þrír sólarhringar. Forsenda þeirra tilgátna sem ráða foreldrum heilt varðandi það að „búa til stelpu eða strák“ felst í að ráða í mismunandi eiginleika Y litnings (karlkynslitningur) og X litnings (kvenkynslitningur). Því hefur verið haldið fram að X-litningurinn sé þrautseigari og lífvænlegri en Y-litningurinn, sem hins vegar er talinn vera hraðskreiðari og fjörugri. Ef ætlunin er að reyna að eignast stúlkubarn, þá er skynsamlegt að getnaður eigi sér stað fyrir egglos, þannig að hinar þrautseigju kvenkynssæðisfrumur séu enn í fullu fjöri þegar egglos á sér stað. Ef hins vegar ætlunin er að reyna að eignast strák, er mælt með því að getnaður eigi sér stað við egglos eða jafnvel stuttu eftir egglos. Ekki gat ég fundið svar við því hversu áreiðanlegar þessar vísindaráðleggingar eru. Á netinu getið þið líka fundið fjölda pælinga og reikniskúnsta um það hvernig t.d. hægt sé að lesa og ráða í stjörnurnar m.t.t. hvort ætlunin sé að búa til strák eða stelpu. 

Gangi ykkur vel,

Steinunn Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
14. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.