Lykkjan og þungun

26.03.2007

Góðan dag. Mér var bent á þessa síðu og að hér væri hægt að fá góð svör.

Þannig er nú mál með vexti að mig langar að eignast barn. Ég er með venjulega lykkju og búin að vera með hana í eitt ár. Ég læt taka úr mér lykkjuna 26 mars en reikna með að vera með egglos kringum 30 mars! Þarf legið tíma til að jafna sig eftir að lykkjan er tekin eða má strax reyna verða ólétt?

Með von um svör

 


 

Komdu sæl.

Ég er nú ekki alveg viss um hvaða lykkju þú kallar venjulega en ef það er koparlykkja þá hverfa áhrif hennar um leið og hún er tekin þannig að þú getur strax byrjað að reyna að verða ólétt.  Ef þú ert með hormónalykkjuna þá má búast við að einhvern tíma taki fyrir öll hormón að fara úr líkamanum en það ætti þó ekki að vera langur tími og þú getur orðið ólétt mjög fljótlega eftir að hún er tekin. 

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
26.03.2007.