Maríustakkur til að auka frjósemi

31.05.2012

Halló!

Hafa verið gerðar einhverjar rannsóknir á því hvort maríustakkur
hjálpar raunverulega til við að verða þunguð? Er vitað hvernig þetta virkar?
Hvert er ykkar álit á þessu? 
Sæl!

Eftir leit í gagnasöfnum get ég ekki fundið neinar rannsóknir sem styðja að maríustakkur (alchemilla vulgaris) hjálpi til við frjósemi. Hinsvegar er mikið skrifað um notkun maríustakks á hinum ýmsu vefsíðum tengdum frjósemi, þar er bent á gagnsemi maríustakks við að verða þunguð og til að stilla af tíðarblæðingar. Einnig er bent á að maríustakkur hafi verið notaður til að stöðva blæðingu öldum saman. Maríustakkur virðist því hafa áhrif á blóðstorkukerfi líkamans.

Ef þú ákveður að nota maríustakk til að auka frjósemi mæli ég með að þú fylgist vel með hvort þú verðir þunguð því ekki er vitað hvaða áhrif jurtalyf geta haft á hið ófædda  barn og meðgönguna, því ætti nota jurtalyf með varúð á meðgöngu. einnig bendi ég á fyrirspurn hér á vefnum um jurtalyf á meðgöngu.

Gangi þér vel.


Það skal tekið fram að undirrituð hefur ekki sérþekkingu á notkun jurtalyfja heldur eru þessar upplýsingar fengnar eftir stutta leit á vefnum.


Með kveðju

Signý Dóra Harðardóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
31. maí 2012