Spurt og svarað

27. nóvember 2003

Missti fóstur - erum að reyna aftur...

...málið er að ég missti fóstur þegar ég var komin 16 vikur. Ég var látin fæða barnið og fór síðan í útskrap til að sækja fylgjuna. Við fengum góða skýringu um hvað hefði komið fyrir. Nú er kominn sá tími sem ég hefði átt að eiga barnið  og er þessi tími mjög erfiður fyrir okkur hjónin.  Við erum ung og hefði þetta verið fyrsta barnið okkar. Okkur var sagt að eftir fyrstu blæðingar hefðum við mátt reyna aftur. Nú eru komnir 5 mánuðir síðan að þetta gerðist og ég er orðin svolítið óþolinmóð. Getur tekið langan tíma að verða ólétt aftur? Hvað er algengur tími og er engin hætta á að eitthvað hafi gerst í útskrapinu?

....................................................................................................................................................

Ég vil byrja á að segja að mér þykir leitt að heyra um fósturlátið þitt og það er mjög skiljanlegt að sárar og erfiðar tilfinningar komi upp í kringum áætlaðan fæðingardag barnsins.  Margir foreldrar sem hafa deilt þessari reynslu eiga það sameiginlegt að hafa sterka löngun til að reyna fljótt aftur.  Þú segir að þið séuð ung og tölfræðilega séð er það kostur þegar reynt er að geta barn.   Talið er að 20-25 ára par sé að meðaltali 4-5 mánuði að geta barn og eigi 93-97% líkur á að verða þunguð innan árs, sé parið milli 25 og 30 ára tekur það að meðaltali 5-6,7 mánuði og líkur á þungun innan árs eru 86-93%.  En þetta eru aðeins tölfræðilegar líkur sem erfitt getur verið að heimfæra upp á einstök pör en þetta gefur þér vonandi hugmynd og í besta falli von.  Margir velta einnig fyrir sér hvort streita og áhyggjur geti haft áhrif á frjósemi en þær rannsóknir sem hafa verið gerðar benda frekar til að slíkt sé afleiðing ófrjósemi frekar en orsakavaldur. 

Það eru hverfandi líkur á að eitthvað hafi gerst í útskafinu sem gæti hafi áhrif á frjósemi þína.  Við útskaf er farið með sljóa sköfu upp í legið til að tæma innihald þess og mjög litlar líkur eru á að hún geti skilið eftir einhver ör sem hafa áhrif á frjósemi.  En við útskaf, sem og allar aðrar aðgerðir, er alltaf einhver sýkingarhætta og sýking og örmyndun í eggjaleiðurum er þekktur orsakavaldur að ófrjósemi.  Hins vegar er afar ólíklegt að þú hafir fengið slíka sýkingu í kjölfar útskafs án þess að hafa orðið hennar vör. 
 

Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 24.11.2003

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.