Spurt og svarað

31. ágúst 2004

Næsta barn

Sæl

Er það slæmt fyrir móður að stutt líði milli barna? Ég á eitt 3 mánaða og langar að koma með annað sem fyrst. Ég er 25 ára og fæðing og meðganga gengur mjög vel hjá mér og barnið braggast vel.

Barnakerling.

.......................................................................

Komdu sæl, barnakerling og til hamingju með barnið þitt!
 
Það er fátt, sem mælir á móti því, að stutt sé á milli barna þinna, svo framarlega sem þú ert búin að jafna þig andlega og líkamlega, eftir eðlilega meðgöngu og eðlilega fæðingu, sem er oft talað um að taki u.þ.b. 3 mánuði. Mikilvægt er einnig, að þú ert sjálf tilbúin að takast á við aðra meðgöngu og fæðingu jafnframt nýja hlutverkinu þ.e. móðurhlutverkinu.

Hins vegar þarf eðlileg hormónastarfssemi þín og tíðahringurinn að vera kominn aftur í eðlilegt horf til að frjóvgun á eggi geti orðið. Þú nefnir ekki brjóstagjöf en hafir þú barn þitt eingöngu á brjósti eins og réttilega er mælt  með í allt að sex mánuði, getur það ferli komið í veg fyrir egglos á meðan.

Þar sem brjóstagjöfin er svo mikilvæg eins og raun ber vitni samkvæmt rannsóknum, bæði fyrir barnið þitt og sjálfa þig, get ég ekki mælt með því, að þú dragir úr eða hættir með barnið á brjósti á þessum tímapunkti til að geta orðið barnshafnandi á ný. Þegar barnið þitt byrjar að fá eitthvað með brjóstagjöfinni á tímabilinu 4-6 mánaða og lengra fer að líða á milli gjafa hjá þér, byrjar tíðahringurinn væntanlega sína eðlilegu hringrás og þú hefur möguleika á að verða barnshafandi á ný.
 
Með von um barnalán þér til handa.

Kveðja,

Kolbrún Jónsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
30. ágúst 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.