Of gömul til að ganga með barn?

23.04.2007
Hæ ég er 36 en verð 37 í sumar við hjónin erum að hugsa um að koma með eitt barn í viðbót, við eigum 2 saman en ég svo eitt og hann eitt.  Mig langar meira í barn en hann og yngsta okkar er að verða 6 ára, Núna erum við búin að taka ákvörun um að eiga eitt í viðbót.  En þá allt í einu fór ég að hugsa um er ég of gömul til að leggja á mig eitt barn í viðbót.  Er meiri hætta að ég fæði ekki helbrigt barn ? Vonandi verður mér svarað.
kveðja
Hekla Stefánsdóttir

 
Komdu sæl Hekla og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is,
 
Gömul en sígild og sönn klysja er að svara spurningum um aldur með afstæði. Aldur er afstæður og ég held að ég geti svo sannarlega fullvissað þig um að þú sért ekki komin á síðasta snúning hvað varðar barnseignarpælingar. Líkamlega hafa þó sumar konur tjáð að þær finni fyrir ”aldrinum” í samanburði við að ganga með barn 20 ára eða 35 ára. Í þínu tilfelli er t.d. ekki ólíklegt að þú verðir þreyttari á væntanlegri meðgöngu en í þinni fyrstu, en það gæti kannski fyrst og fremst stafað af því að þú greinilega rekur stórt heimili sem tekur sinn toll. Þannig að þreytan er líklega ekki eingöngu vegna ”líkamlegrar” vangetu þinnar.
Vissulega er það svo að prósentulíkur á því að ”fæða” heilbrigt barn versna með hækkandi aldri, þ.e. það eru auknar líkur á því að eignast barn sem er með litningagalla. Sú ”áhætta” að allt sé í lagi, taka hins vegar allir foreldrar sem ákveða að reyna að eignast barn og prósentulíkur spila misstór hlutverk í því ákvarðanaferli. Á síðunni okkar eru nokkur svör sem þú getur lesið varðandi þetta, t.d. getur þú leitað undir ”heilbrigt barn”.
 
Gangi þér vel,
Bestu kveðjur,
Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
23. apríl 2007.