Of mikið C-vítamín?

11.09.2004

Áður en ég varð ófrísk, þá tók ég inn C-vítamín í svolitlu magni ef mér fannst ég vera að fá kvef. Þá tók ég inn tvær 500 gramma C-vítamín töflur 2-3 daga í röð og þetta virkar mjög vel hjá mér gegn kvefinu. Núna er ég komin 19 vikur á leið og hef ekki þorað að taka svona mikið magn í einu síðan ég varð ófrísk (fékk tvisvar kvef í sumar). Er í lagi að taka svona mikið magn af C-vítamíni þegar maður er ófrískur? Fengi barnið einhverja eitrun eða er þetta vítamín sem myndi bara skila sér út ef það er of mikið af því í líkamanum?

...................................................................

Sæl og takk fyrir að spyrja um þetta.

C-vítamín er mikilvægt fyrir heilbrigði fruma, vefja, tauga, tanna og beina.  Einnig mikilvægt fyrir græðslu sára, efnaskipti amínósýra og svo eykur það upptöku járns úr fæðunni.   Of lítið af C-vítamíni getur leitt til aukinnar tíðni bakteríusýkinga, marbletta, bjúgmyndunar, gyllinæðar, blóðleysis, lélegrar meltingar, tannholdssjúkdóma og skyrbjúgs.

Mælt er með að auka neyslu C-vítamíns um 10-15 mg. á meðgöngu sem auðveldlega má fá með fjölbreyttu fæði en C-vítamín er t.d. að finna í sítusávöxtum, berjum, melónum, tómötum, kartöflum, steinselju og grænu grænmeti.  Ofskömmtun getur haft þau áhrif að efnaskipti fósturs verði háð of miklu C-vítamíni og þannig er möguleiki að barnið þrói með sér skyrbjúg þegar það er nýburi (Heimild: Worthington-Roberts, B.S.  (1997). Nutrition in Pregnancy and Lactation). Af þessu er ljóst að mikilvægt er að tryggja ráðlagðan dagskammt hvort sem það er gert með daglegu fæði eða vítamíntöflum en dagleg neysla ætti helst ekki að fara mikið yfir ráðlagðan dagskammt. 

Á meðgöngu ætti helst ekki að taka of stóra skammta af vítamínum hvort sem þau eru vatnsleysanleg eða fituleysanleg nema fyrir liggi rannsóknir sem sanna ótvírætt fram á að það sé óhætt fyrir móður og barn.  Það er öruggara að neyta hollrar og fjölbreyttrar fæðu og tryggja þannig nægjanleg vítamín. 

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
11. september 2004.