Spurt og svarað

09. ágúst 2012

Óléttueinkenni en neikvætt þungunarpróf

Sæl.
Ég er 22 ára og hef alltaf verið með reglulegar blæðingar. Nánast alltaf nákvæmlega á 28 daga fresti. Ég hætti á pillunni um áramótin. Ég á að vera byrjuð á blæðingum fyrir þremur vikum en þær eru ekki komnar, viku eftir að ég átti að byrja á blæðingum komu nokkrir ljósbleikir dropar og svo brún útferð í nokkra daga ( bara þegar ég fór á klósettið) Mér er búið að vera óglatt allan daginn í svona 2 vikur og er búin að æla öllu sem ég hef borðað yfir daginn þrisvar. Ég er mjög þreytt og er búin að sofa nánast stanslaust sem er mjög ólíkt mér sem vakna yfirleitt fyrst af öllum og fer seint að sofa. Mig klæjar í geirvörturnar og er með hiksta oft á dag (veit ekki hvort það sé einkenni). Ég pissa líka mjög oft og er mjög viðkvæm og grátgjörn. Ég er búin að taka nokkur óléttupróf og þau koma öll neikvæð. Ég er ekki viss hvert ég á að snúa mér eða hvort ég eigi bara að bíða og sjá. Ef ég er ekki ólétt hvað getur þetta þá verið?
Með bestu kveðju, ein óviss.

Sæl!

Miðað við lýsingu þína á einkennum hljómar þetta eins og þú gætir verið barnshafandi, verið getur að þungunarprófið sé bara ekki jákvætt ennþá. Ef þú byrjar ekki á blæðingum á næstu dögum og færð ekki jákvætt þungunarpróf viku eftir að þú tókst síðasta próf, ráðlegg ég þér að leita til læknis ef ógleðin og uppköst halda áfram. Einnig bendi ég á grein um þungunarpróf hér á vefnum.
Ekki er gott að segja hvað þetta getur verið ef þú ert ekki barnshafandi. Það að missa úr einar blæðingar er alveg eðlilegt og ekki alltaf um þungun að ræða en viðvarandi ógleði án þess að vera þunguð er ekki eðlilegt ástand og ætti að athuga það nánar. Hiksti telst ekki sem einkenni þungunar. Annað sem ég tók eftir er að þú nefnir ekki hvort þú sért búin að vera með hita eða hvort þú sért með verki, sem eru ekki einkenni þungunar.

Vona að þetta gangi allt upp hjá þér.

Með bestu kveðju, Signý Dóra Harðardóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í janúar 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.