Spurt og svarað

27. júní 2004

Öll einkenni en neikvætt þungunarpróf

Hæ, hæ

Ég var að vonast til að þú gætir hjálpað mér. Þannig er mál með vexti að ég hætti á pillunni í byrjun maí og fór á blæðingar þann 15. sem stóðu yfir í u.þ.b. 2 daga, eftir það byrjuðum við maðurinn minn að búa til barn, fyrir rúmlega eini og hálfri viku fór ég að finna smá breytingu á mér að því leiti að ég var alltaf með eitthvað skrítið bragð í munninum sem bara fór ekki sama hvað ég gerði, vægan hausverk, smá túrverki af og til og smá ógleði. Núna í dag er ég búin að versna töluvert í ógleðinni og kastaði upp í gær eftir að ég lagði mig um miðjan daginn, ég er alveg rosalega þreytt allan liðlangan daginn og finn fyrir ógleði af og til sérstaklega þegar ég er nýbúin að borða, ég pissa einnig oftar og er aum í geirvörtunum. Ég er búin að taka óléttupróf en fékk neikvætt. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að halda. Er ég ólétt eða er líkaminn minn að stríða mér? Eins og staðan er núna er ég bara að bíða eftir einhverju svari hvort sem það er rósa frænka eða jákvætt óléttupróf!

Hefurðu einhver ráð handa mér því ég er að missa vitið?

Komdu sæl, og takk fyrir fyrirspurnina!

Ef þú hefur verið með blæðingar sem byrjuðu þann 15. maí, þá er hugsanlegt að þú hafir orðið þunguð í þessum tíðarhring. Sumar konur finna fyrir einkennum þungunar um leið og þær eru orðnar ófrískar og þessi einkenni sem þú lýsir eru vissulega þungunareinkenni. Fyrst þú færð neikvætt þungunarpróf þá gæti verið að þú hafir gert það of snemma, þungunarprófin verða ekki jákvæð fyrr en eftir þann tíma sem blæðingar ættu að byrja. Ef þú ert ekki þunguð (geri ráð fyrir því að þú gerir annað þungunarpróf) þá eru þessi einkenni sem þú lýsir sennilega af einhverju öðru, og ef þau minnka ekki og þau trufla þig mikið, ættir þú kannski að leita læknis.

Þau ráð sem ég get gefið þér er að taka því rólega og reyna að hafa ekki of miklar áhyggjur af þessu, þið eruð ný byrjuð að reyna að verða ólétt og það getur tekið nokkra tíðahringi þangað til það tekst. Ég skil að þú sért mjög spennt yfir þessu enda er þetta mjög spennandi og það er merkileg stund í lífi hverrar konu þegar hún fær jákvætt þungunarpróf.

Gangi þér sem allra best, kær kveðja,

Halla Björg Lárusdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 24.júní 2004.
Yfirfarið í desember 2019

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.