Spurt og svarað

20. ágúst 2007

Önnur meðganga eftir keisara og líkur á ungbarnakveisu.

Sælar og takk fyrir góðan þráð.
Þannig er mál með vexti að við hjónin erum að velta því fyrir okkur að fara að koma bara með annað strax aftur en prinsinn okkar er orðinn 3ja mánaða og var ég að spá hversu lengi borgar sig að bíða lengi eftir keisara?? Var sett af stað og endaði í keisara vegna framhöfuðstöðu.
En það sem kannski stoppar aðeins er að hann fékk ungbarnakveisu og erum við því stressuð að fá kannski annað kveisubarn svona fljótt aftur, eru meiri líkur að fá aftur kveisubarn fyrst hann fékk kveisu? Veit að það er ekkert öruggt en var bara að spá hvort líkurnar væru meiri þar sem þetta tók ansi mikið á, en er greinilega að gleymast fyrst við erum að spá í annað strax:)

Kv, ein gleymin


Komdu sæl.

Ég er sammála þér það hefur ekki verið mjög slæmt fyrst það er strax farið að gleymast.  Ef þér finnst þú vera tilbúin þá er ekkert sem stoppar það að fara aftur af stað.  Þú þarft bara að vera búin að ná þér vel líkamlega eftir fyrri fæðngu og þú getur best metið það sjálf hvenar þú ert orðin sjálfri þér lík.  Það tekur mismikinn tíma en flestar konur hafa náð sér nokkuð vel á þremur mánuðum.  Það eina sem hægt er að segja þér er að meðgöngur, fæðingar og börn verða aldrei eins frá einu skipti til annars.  Næsta meðganga verður örugglega öðruvísi þó ekki sé nema vegna þess að þú ert með annan einstakling ti að hugsa um á heimilinu.  Þú færð líka annað barn sem verður ekki eins og það sem þú átt fyrir.  Ég veit því miður ekki líkurnar á því að næsta barn fái líka magakveisu og held að aldrei sé hægt að segja til um það fyrirfram það er bara eitthvað sem verður að takast á við ef það gerist.  En eins og þið vitið núna þá er þetta tímabundið ástand sem gengur yfir. 

Gangi ykkur vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
20. ágúst. 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.