Óreglulegar blæðingar og egglos

15.06.2007

Sæl

Ég hætti á pillunni (Novynette) í byrjun maí og byrjaði svo á blæðingum 24.maí og er enn á blæðingum! Er það alveg eðlilegt að hafa svona langar blæðingar eftir að hafa hætt á pillunni? Ég er farin að hafa smá áhyggjur af þessu. Þetta eru ekki venjulegar blæðingar, mjög litlar og brúnleitar í byrjun en núna eru þær ljósrauðar eða bleikar og kemur aðalega í papírinn eftir að ég er búin að pissa.
Önnur spurning er að við hjónin vorum ekki að reyna getnað í maí, notuðum alltaf aðra getnaðarvörn, en núna um helgina vorum við kærulaus. Svo fór ég að spá að samkvæmt því að ég byrjaði á blæðingum 24. maí þá hefur egglosatímabilið akkurat verið um helgina.... fæ ég egglos þó svo ég sé enn á blæðingum?

Þú verður að afsaka hvað þetta er langt, vona að þú getir gefið mér einhver svör, næ aldrei sambandi við lækninn minn.
Kveðja LKomdu sæl

Blæðingar geta verið mjög óreglulegar fyrst eftir að kona hættir á pillunni og sérstaklega ef hún hefur verið óregluleg áður þannig að sennilega er þetta alveg eðlilegt. Óreglulegum blæðingum fylgir líka óreglulegt egglos þannig að það er ekki hægt að segja til um það hvort það hefur átt sér stað um helgina eða ekki.  Það er alveg hugsanlegt að egglos verði þegar blæðingar eru svona litlar eða milliblæðingar, en það þarf samt ekki að vera.

Vona að þetta svari spurningu þinni

 Kveðja

 

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
15. júní 2007.