Spurt og svarað

19. júlí 2004

Pergotime

Er að reyna að verða ólétt og langar svoooooo í barn...
Málið er að ég fékk minn síðasta skammt af hormónasprautunni í ágúst og byrjaði reglulega á túr í apríl og er með 26 daga tíðahring svo egglos ætti að vera á 12. degi tíðarhrings. Einhvern veginn gengur þetta ekki svo ég var að spá hvort ég ætti að leita til læknis eða kannski bara anda rólega.  Málið er að ég bý í Danmörku og er svo til nýflutt þangað svo ég hef aldrei farið til læknis hér svo ég veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér.  Hef heyrt um pergotime.

Kveðja.

.........................................................

Sæl vertu!
Það getur svo sannarlega tekið á taugarnar að bíða eftir prufan verði jákvæð - svo ég tali nú ekki um vonbrigðin í hverjum mánuði þegar blæðingarnar byrja...

...en hvað um það, ég held að þú þurfir ekki að örvænta alveg strax.  Það er miklu algengara að tilraunir taki nokkra mánuði áður en þær bera árangur heldur en hitt.  Þó „reglan“ segi að þú eigir að hafa egglos á 12. degi tíðahringsins þar sem hann er 26 dagar hjá þér þá getur það verið pínulítið breytilegt svo þú getur hafið rannsóknarstörf með því að mæla þig á hverjum morgni (sjá svarið við: Er að reyna...) eða keypt þér próf sem segir þér hvort þú hefur egglos eða ekki, þau fást í flestum apótekum, vonandi í Danmörku líka.  Oftast er beðið með að reyna að greina ófrjósemi hjá ungu fólki í ár eftir að það byrjar að reyna.  Ég tel að skynsamlegasta leiðin ef þú vilt leita þér hjálpar með þessi mál í Danmörku sé að byrja á að fara til heilsugæslulæknis sem getur síðan vísað þér áfram til kvensjúkdóma- og fæðingalæknis ef honum finnst ástæða til.  Pergotime er frjósemislyf sem örvar heiladingulinn (hormónstarfsemi) og eggjastokkana.  Það ætti aldrei að nota nema að vel athuguðu máli og ef kona hefur egglos á annað borð er ekki víst að lyfið eitt og sér hjálpi, það getur jafnvel valdið aukaverkunum sem verða til trafala.  Og vel á minnst: Ófrjósemi er fyrirbæri þar sem ástæðan liggur ekki alltaf hjá okkur konunum, karlarnir geta líka verið með lítið eða „latt“ sæði, vandinn getur líka legið hjá þeim.  Láttu reyna svolítið lengur á þolinmæðina, ég er bjartsýn á að það beri árangur.  Ef eða þegar hún brestur væri rétt að leita læknishjálpar en ég ítreka að ég tel ólíklegt að eitthvað verði gert áður en árs reynslutíminn er liðinn.

Bestu kveðjur og gangi þér vel,                                                   
Inga Vala Jónsóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur - 15. júlí, 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.