Retin-A

29.01.2004

Kæra ljósmóðir!
Vegna húðvandamála þurfti ég að nota húðgelið Retin-A í 10-11 mánuði. Ég hætti að nota það 6-8 vikum áður en ég varð ófrísk en hef samt áhyggjur af því að lyfið hafi safnast fyrir í líkamanum og geti haft skaðleg áhrif á fóstrið. Ég er komin 11 vikur á leið. Eru þetta kannski óþarfa áhyggjur?

...................................................................................................................................................

Eftirfarandi upplýsingar um lyfið Retin-A eru í Sérlyfjaskrá á vef Lyfjastofnunar http://www2.lyfjastofnun.is/Textaskjol/Rammar.htm

„Meðganga og brjóstagjöf: Reynsla af notkun lyfsins hjá þunguðum konum er takmörkuð. Einstaka tilkynningar eru til um fósturskaða hjá nýburum kvenna sem hafa verið meðhöndlaðar með tretínóíni á meðgöngu. Í afturvirkum rannsóknum á nýburum kvenna sem voru meðhöndlaðar með tretínóíni á fyrsta þriðjungi meðgöngu var ekki hærri tíðni fósturskaða miðað við nýbura kvenna úr sama hópi sem voru ekki meðhöndlaðar með tretínóíni. Til að gæta fyllstu varúðar á ekki að nota lyfið á fyrsta þriðjungi meðgöngu“

Með þessar upplýsingar í huga ættir þú ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessu.  Gangi þér vel!

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, 29. janúar 2004.