Reyna að eignast barn!!

13.03.2015

Halló, ég og kærastinn minn erum að reyna að eignast barn, en það er ekkert að virka. Gætir þú  bent mér á eitthvað sem væri hægt að gera til að auka líkurnar á óléttu? Eða jafnvel segja mér við hvern við gætum talað  t.d. lækni sem gæti tekið sýni af okkur og látið í rannsókn og sagt okkur ef það er eitthvað að. Með bestu kveðju Margrét

 

Heil og sæl Margrét, það kemur ekki fram í bréfinu þínu hve lengi þið eruð búin að vera að reyna. Oft tekur það eitt til tvö ár að búa til barn án þess að neitt óeðlilegt sé í gangi. Það fyrsta sem þarf að huga að er að kynlíf sé örugglega stundað kringum þann tíma sem egglosið er. Egglos er alltaf 14 dögum á undan blæðingum. Svo dregur úr virkni sæðisfruma ef að maðurinn er búinn að liggja í heitum potti/baði sem er yfir 38 stig. Það sama gildir um gufubað. Áfengisneysla og reykingar draga einnig úr frjósemi. Almennt mundi ég segja að reglulegt kynlíf (á réttum tíma tíðahrings), reglulegur svefn, hollur matur og hreyfing eru allt þættir sem auka líkur á getnaði. Ef þið eruð búin að reyna þetta allt saman og reyna í meira en ár mundi ég ráðleggja ykkur að leita fyrst til kvensjúkdómalæknis sem mundi ráðleggja ykkur áfram. Gangi ykkur vel.  

 
Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
13. mars 2015