Skapsveiflur og óléttueinkenni

23.09.2008

Sælar.

Við maðurinn minn höfum verið að reyna að eignast barn í að verða 2 ár. Við fórum og leituðum okkur hjálpar hjá Guðmundi Arasyni og erum nú í hinum og þessum skoðunum. Ég á til dæmis að fara í kviðspeglun núna í október en síðustu vikuna hef ég verið svakalega aum í brjóstum, ég er nýfarin að fá ógleði hvenar sem er dags, höfuðverk og svima tilfinningu, ég er einnig með harðlífi og það sem fer mest í mig er svakalegar skapsveiflur sem ég hef haft síðustu vikuna. Eina stundina er ég hamingjusöm og glöð, þá næstu er ég farin að gráta án þess að vita afhverju og nokkrum mínutum síðan er ég alveg að fara að missa mig úr reiði og pirring, svona sveiflast ég allan daginn en þessar sveiflur þekki ég ekki og hef aldrei sveiflast svona áður, ég finn ekki einusinni fyrir skapbreytingum á blæðingum. Gæti þetta verið vegna þess að ég er farinn að hafa reglulegar blæðingar og hormónin komin í lag eða gæti loksinns verið að við séum ólétt?


Komdu sæl

Vissulega minna þessi einkenni á barnshafandi konu en þau geta líka stafað af álagi og þeirri vona að nú sé eitthvað að koma í ljós og eitthvað að fara að gerast.  Ef þú tekur þungunarpróf þá kemur þetta í ljós en mundu að þið eruð undir gífurlegu álagi og svona skapsveflur eru eðlilegar á svona tímum.

Gangi þér vel


Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
23. september 2008.