Spurt og svarað

12. maí 2005

Skrítnar blæðingar og leki úr brjóstum

Hæ, hæ!

Þannig er mál með vexti að ég og kærastinn minn erum að reyna að eignast barn og erum þannig séð bara ný byrjuð þ.e. í einn tíðarhring. Eins og er þá er ég á blæðingum sem hafa samt sem áður verið mjög skrítnar. Ég tók þungunarpróf á 27 degi tíðahrings sem kom neikvætt og byrjaði á blæðingum tveim dögum seinna þ.e.a.s. á 29 degi tíðahrings. Tíðahringurinn er vanalega um 28-30 dagar hjá mér. Blæðingarnar núna hafa bara verið brúnar og slímugar eins og blóðið sé storknað eða álíka og vanalega hef ég verið með blæðingar í u.þ.b. 5 daga en núna á 3 degi eru þær nánast búnar. Ég var með ágætlega miklar blæðingar þannig að ég gerði ráð fyrir að þær væru bara eðlilegar fyrir utan litinn. Í gær var ég með svolitla kviðverki eins og hálfgerða vindverki og hélt að þetta myndi lagast en er ennþá með þá degi seinna og það fyndna er að þegar ég ýti á magann mjög neðarlega (á leg staðnum) þá finn ég til og leiða verkirnir lengra upp. Þar að auki fór að leka úr brjóstunum á mér smá glær hvítur vökvi á 17 degi tíðahrings og er enn að gera það. Það hefur aldrei gerst áður hjá mér en mér skilst að þetta sé mjög algengt að þetta gerist hjá konum en hafi ekkert með þungun að gera. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að halda lengur. Ég hélt bara að þetta hefði ekki heppnast í þetta sinn þar sem ég byrjaði á blæðingum svona á réttum tíma en þær eru bara allt örðuvísi en vanalega (brúnar) og svo þessi kviðverkur sem er samt sem áður ekkert að hrjá mig og svo þessi leki úr brjóstunum. Er möguleiki að ég sé ófrísk eða hvað. Ég finn annars engin önnur óléttu einkenni. Ætti ég kannski að láta athuga mig frekar út af þessu?

Með von um svör.
Kveðja, Óviss.

..............................................................................

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina!

Ég tel ekki miklar líkur á því að þú sért ófrísk þar sem blæðingarnar komu á réttum tíma og eru svipaðar að magni og vanalega.  Ef þú hefur verið á pillunni áður geta þær aðeins breyst.  Hvað litinn varðar get ég ekkert sagt um nema að blóð dökknar eftir því sem það verður eldra, ferskt blóð er rauðara.  Vonandi er þessi kviðverkur tilfallandi og eymslin yfir legstað en ef hann versnar er að sjálfsögðu ástæða til að láta athuga málið og vera viss um að ekki sé um utanlegsþungun að ræða.

Með von um að „barnatilbúningurinn“ gangi vel.

Bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.