A og D vítamín á meðgöngu

25.09.2011

Góðan dag.

Mig langar til að forvitnast aðeins um vítamín. Þegar ég varð ólétt var ég í meðferð hjá Art Medica og læknir þar sagði mér að taka alls ekki A og D-vítamín. Síðan fór ég í skoðun hjá ljósmóður um daginn og hún sagði mér að ég yrði að taka A og D-vítamín á meðgöngunni þannig að núna er ég alveg rugluð og vona ég að þið getið leiðbeint mér í þessu. Ég er komin 17 vikur.

Kærar kveðjur, Dísa.

 


 

Sæl og blessuð Dísa!

Hér hlýtur að vera einhver misskilningur á ferðinni. Barnshafandi konum er yfirleitt ekki ráðlagt að taka sérstaklega inn A-vítamín en það er í lagi, svo framarlega sem samanlögð neysla þess úr fæðu og fæðubótarefnum fer ekki yfir ráðlagðan dagsskammt (RDS).

Það er hins vegar alltaf að koma betur og betur í ljós að við sem búum á norðlægum slóðum þar sem sólar nýtur ekki svo mikið við, þurfum flest ef ekki öll að taka inn D-vítamín. Barnshafandi konur ættu þó ekki að taka inn meira af D-vítamíni en ráðlagðir dagsskammtar segja til um. Töluverð umræða er nú um hvort ráðlagði dagsskammtar af D-vítamíni sé of lágir en það á vonandi eftir að skýrast.

Ef þú tekur t.d. 1 teskeið af Þorskalýsi þá færðu 230 µg af A-vítamíni eða um 29% af RDS og 9,2 µg af D-vítamín eða um 92% af RDS.

Nánar um A-vítamín og D-vítamín á vefsíðu Lýðheilsustöðvar.

Vona að þetta skýri málið.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. september 2011.