Spurt og svarað

25. september 2011

A og D vítamín á meðgöngu

Góðan dag.

Mig langar til að forvitnast aðeins um vítamín. Þegar ég varð ólétt var ég í meðferð hjá Art Medica og læknir þar sagði mér að taka alls ekki A og D-vítamín. Síðan fór ég í skoðun hjá ljósmóður um daginn og hún sagði mér að ég yrði að taka A og D-vítamín á meðgöngunni þannig að núna er ég alveg rugluð og vona ég að þið getið leiðbeint mér í þessu. Ég er komin 17 vikur.

Kærar kveðjur, Dísa.

 


 

Sæl og blessuð Dísa!

Hér hlýtur að vera einhver misskilningur á ferðinni. Barnshafandi konum er yfirleitt ekki ráðlagt að taka sérstaklega inn A-vítamín en það er í lagi, svo framarlega sem samanlögð neysla þess úr fæðu og fæðubótarefnum fer ekki yfir ráðlagðan dagsskammt (RDS).

Það er hins vegar alltaf að koma betur og betur í ljós að við sem búum á norðlægum slóðum þar sem sólar nýtur ekki svo mikið við, þurfum flest ef ekki öll að taka inn D-vítamín. Barnshafandi konur ættu þó ekki að taka inn meira af D-vítamíni en ráðlagðir dagsskammtar segja til um. Töluverð umræða er nú um hvort ráðlagði dagsskammtar af D-vítamíni sé of lágir en það á vonandi eftir að skýrast.

Ef þú tekur t.d. 1 teskeið af Þorskalýsi þá færðu 230 µg af A-vítamíni eða um 29% af RDS og 9,2 µg af D-vítamín eða um 92% af RDS.

Nánar um A-vítamín og D-vítamín á vefsíðu Lýðheilsustöðvar.

Vona að þetta skýri málið.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
25. september 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.