Telfast ofnæmislyf

30.08.2005

Sælar!

Þannig er mál með vexti að ég er að reyna að verða ólétt. Ég er með mikið katta- og hundaofnæmi (raunar fyrir öllum loðnum dýrum, frjókornum og ryki) en á samt sem áður kisu. Við ofnæminu hef ég fengið Telfast töflur og sérstakt nefsprey sem heldur ofnæminu niðri og gerir mér kleift að vera í kringum dýr og eiga köttinn minn. Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé skaðlegt að taka þessar töflur eftir að ég verð ólétt? (Þetta eru 120 mg töflur og ég þarf að taka eina á dag, veit ekki hvort það skiptir máli).

Bestu kveðjur.

.........................................................................

Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Það er mjög skynsamlegt af þér að velta þessu fyrir þér núna þegar þú ert að reyna að verða ólétt því sum lyf geta verið varasöm í byrjun í meðgöngu.

Í Sérlyfjaskránni á vef Lyfjastofnunar er að finna eftirfarandi upplýsingar um Telfast:

„Meðganga: Ekki liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um notkun fexófenadín hýdróklóríðs hjá barnshafandi konum. Takmarkaðar rannsóknir á dýrum benda hvorki til beinna né óbeinna skaðlegra áhrifa hvað varðar áhrif á meðgöngu, fósturvísis-/fósturþroska, fæðingu eða þroska eftir fæðingu. Ekki ætti að nota fexófenadín hýdróklóríð á meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til.“

Með þessar upplýsingar í huga vil ég ráðleggja þér að hafa samband við heimilislækni og fá þar upplýsingar um hvort til sé öruggt lyf sem þú getur notað á meðgöngunni í staðinn. Ef ekki er til öruggt lyf þá er vissara að fá pössun fyrir kisa.

Vona að allt gangi vel hjá þér.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. ágúst 2005.