Tússól hóstasaft til að auka frjósemi

30.09.2005

Mig langar til að forvitnast um hóstasaftið Tússól.  Ég hef lesið að það eigi að vera gott fyrir konur sem eru að reyna að verða „bomm“ að taka inn Tússól frá 4 degi tíðahrings og fram að egglosi því það eigi að auka frjósama slímið.  Er það rétt?  Mælið þið með þessu?

.......................................................................................

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Tússól er slímlosandi lyf sem er fyrst og fremst notað við hósta. Virka innihaldsefnið í lyfinu heitir Guaifenesin. Árið 1982 birtu Check o.fl. rannsóknarniðurstöður sínar á notkun Guaifenesin við frjósemisvanda. Fjörutíu pör sem höfðu átt við ófrjósemisvanda í a.m.k. 10 mánuði tóku þátt í rannsókninni. Pörin voru valin í rannsóknina eftir að sýnataka frá leghálsi kvennanna í kjölfar samfara sýndi að hreyfanleiki sáðfruma var enginn. Konurnar byrjuðu að taka inn 200 mg af Guaifenesin þrisvar sinnum á dag á 5. degi frá því að líkamshiti konunnar hækkaði (líkamshiti er lægri í byrjun tíðahrings en hækkar við egglos). Við egglos í næsta tíðahring voru síðan aftur tekin sýni í kjölfar samfara og metin hreyfanleiki sáðfruma. Niðurstöðurnar sýndu að hreyfanleiki sáðfruma var marktækt meiri hjá 23 pörum, lítillega aukinn hreyfanleiki hjá 7 pörum en enginn munur á hreyfanleika hjá 10 pörum. Konurnar sem mældust með aukin hreyfanleika sáðfruma í kjölfar samfara héldu áfram að taka inn lyfið í a.m.k. 6 mánuði eða þangað til þær urðu barnshafandi. Alls urðu 16 konur sem tóku þátt í rannsókninni barnshafandi og 15 þeirra voru í þeim hóp sem marktækt meiri hreyfanleiki sáðfruma mældist en 1 kona úr hópnum sem lítillega aukinn hreyfanleiki sáðfruma mældist. Engin þungun varð í hópnum þar sem enginn munur var á hreyfanleika sáðfrumanna.

Það virðist vera að þetta lyf geti hjálpað til við ófrjósemi sem er af þeim toga að legaslíma konunnar er óhagstæð fyrir hreyfanleika sáðfruma. Ófrjósemi getur verið af ýmsum toga og rétt að láta athuga fyrr en síðar hver orsökin er og hvort hægt er að fá aðstoð fagmanna á þessu sviði sem hér á landi eru fæðinga- og kvensjúkdómalæknar.

Það er ekki gott fyrir okkur að segja til um hvort við mælum með þessu eða ekki. Það verður hver og einn að meta áhættu til móts við ávinning af inntöku lyfs sem hægt er að kaupa án lyfseðils. Eftir því sem ég best veit felst ekki mikil áhætta í inntöku þessa lyfs fyrir heilbrigða konu en gæta skal varúðar við astma, lungnaþembu og krónískan reykingarhósta. Ávinningurinn gæti verið einhver ef vandinn er sá sem lyfið getur hjálpað til við að leysa.

Vona að þessar upplýsingar komi að einhverju gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. september 2005.

 

Heimild: Check, J.D. Adleson, H.G, Wu,C-H (1982). Fertility and Sterility (May).