Utanlegsfóstur - hvenær er óhætt að reyna aftur?

21.04.2004

Góðan dag!

Ég var ólétt í janúar okkur hjónum til mikillar ánægju. Fóstrið greindist því miður utanlegs og var fjarlægt fyrir 2 vikum. Hvenær er óhætt fyrir okkur að reyna aftur?

Kærar þakkir fyrir góðan vef.

..................................................................


Sæl vertu og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er erfitt að segja hvenær þér er líkamlega óhætt að reyna aftur, það fer allt eftir umfangi aðgerðarinnar, svo ég skora á þig að leita til læknisins sem framkvæmdi aðgerðina með þessa spurningu.  Að þurfa að binda endi á meðgöngu vegna þess að fóstrið er utanlegs og á sér ekki lífsvon, hefur mismikil tilfinningaleg áhrif á fólk svo ég vona að þú skoðir þann þátt líka.  Verið getur að þú sért tilbúin og óþreyjufull að byrja sem fyrst en það getur líka verið að þú sért enn sorgmædd og viðkvæm vegna þess sem gerst hefur.  Hvort tveggja er eðlilegt og hvort sem er  þá vona ég að ykkur gangi vel á næstu meðgöngu.

Bestu kveðjur,                                                                           
Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 21.04., 2004.