Spurt og svarað

21. september 2004

Utanlegsfóstur síðastliðið sumar

Sælar

Það var utanlegsfóstur fjarlægt hjá mér í sumar, þar sem eggjaleiðarinn var ekki fjarlægður eru þá líkurnar miklar að ég þurfi að ganga í gegnum þetta aftur næst þegar ég verð ólétt?  Einnig, ef ég verð aftur ólétt, hvenær ætti ég að fara í skoðun? Ætti ég að fara upp á Landspítala eða til kvensjúkdómalæknis? Væri ekki möguleiki að fara upp á Landspítala þegar ég hef fengið jákvætt á þungunarprófi og láta taka blóð til að sjá hvort hækkunin á hormónunum sé rétt?

Fyrirfram þakkir.

Sæl vertu og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er oftast mjög erfið reynsla að fá utanlegsfóstur og ég skil vel að þú sért að velta fyrir þér möguleikunum á að þetta geti gerst aftur. Líkurnar eru aðeins meiri hjá þér, kona sem hefur fengið utanlegsfóstur er þrisvar til átta sinnum líklegri til að fá utanlegsfóstur heldur en kona sem hefur aldrei fengið utanlegsfóstur. Þetta hljómar kannski mikið en grunnlíkurnar eru mjög litlar og miklu meiri líkur eru á því að það gerist ekki.

Mér er ekki kunnugt um hvernig þjónustu Landspítalans er háttað í þessum efnum en ég tel best að einhver einn læknir sé inni í þínum málum. Ég held að best væri að þú hefðir samband við kvensjúkdómalækninn þinn núna áður en þú verður ólétt til að leggja með honum áætlun til að fara eftir þegar það gerist, t.d. hvenær er kominn tími til að fara í blóðprufu til að athuga hvort meðgönguhormónin aukast eðlilega, hvenær er hægt að skoða með ómskoðun hvort þungunin er innan eða utan legs o.s.frv.

Með von um að allt gangi vel næst.

Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Yfirfarið í desember 2019

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.