Spurt og svarað

29. desember 2008

Vaktavinna og þungun

Góðan dag!

Við höfum ákveðið að reyna að eignast barn. Ég er að vinna vaktavinnu, og missi oft svefn. Stundum sef ég ekki mikið meira en 5 klukkustundir á sólarhring. Þegar ég er í vaktarfríi sef ég stundum alltað 12 klukkustundir! (Vaktavinnan er bland af dag- og næturvöktum). Það sem ég hef verið að pæla í er hvort þetta gæti haft áhrif á getnað? Ég veit að það skiptir miklu máli að lifa heilbrigðu líferni, en oft fylgir svona vaktavinnu mikil óregla í mataræði og oft er auðvelt að grípa í mat sem er fljótur og þægilegur. Gæti verið að ef að getnaður hefur átt sér stað þá myndi þungunin ekki halda sér ef ég verð mjög þreytt?

Með fyrirfram þökk.

 


 

Sæl!

Vaktavinna og óreglulegt lífsmynstur hefur talverð áhrif á líkamann og hormónastarfsemina. Bæði getur missvefn og óreglulegt mataræði haft áhrif á hvenær egglos verður og þar með haft áhrif á hvenær getnaður á sér stað. Hins vegar finnst mér mjög ólíklegt að hefðbundin vaktavinna komi í veg fyrir að þú haldir þunguninni. Það er þó ráðlegt að þú hugir að mataræðinu og gætir þess að borða sem hollast og eins og þú gerir að vinna upp svefninn þegar þú hefur tækifæri á.
Ef þú lendir í vandræðum með að verða þunguð mæli ég með að þú leitir til fæðinga- og kvensjúkdómalæknis.

Gangi ykkur vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. Desember 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.