Vanvirkur skjaldkirtill og önnur meðganga

16.01.2008

Góðan daginn,

Ég fékk vanvirkan skjaldkirtil í kjölfar meðgöngu með fyrsta barnið mitt (það fæddist mánuð fyrir tímann). Núna hef ég hug á að fara að búa til annað barn og er að velta fyrir mér hvort sjúkdómur minn getur haft áhrif á getnað (er á lyfjum) og eins þegar ég verð ólétt hvort ég muni vera í hefðbundnu eftirliti eða hvort það sé virkara eftirlit.

Með fyrirfram þökk um svör.


Komdu sæl.

Skjaldkirtillinn hefur heilmikið að segja um líkamsstarfsemina almennt.  Ef þú ert hinsvegar í góðu jafnvægi með lyfjunum sem þú ert að taka ættu að vera góðar líkur á að þú getir orðið ólétt.  Stundum þarf að breyta skammtastærðum lyfja á meðgöngunni þannig að það væri góð hugmynd hjá þér að fara í eftirlit til læknisins þíns og ræða þetta við hann og spyrja þá í leiðinni hvernig hann myndi vilja hafa eftirlitið á meðgöngunni.  Venjulega geta konur með vanstarfsemi skjaldkirtils verið í venjulegu eftirliti hjá ljósmóður á heilsugæslustöð með aukaeftirliti innkirtlasérfræðings, eða heimilislæknis.

Gangi þér vel 

 Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
16. janúar 2008