Spurt og svarað

29. febrúar 2004

Við erum að reyna

Ég var á pillunni sl. 7 ár en hætti að taka hana inn fyrir 3 mánuðum síðan.  Tíðahringurinn hefur aðeins teygt úr sér, farið alveg 10 daga fram yfir, en ekkert er samt að gerast. Er eitthvað sem ég get gert til að stuðla að því að ég verði ólétt, eða eitthvað sem ég get gert sem eykur líkur á þungun?

Sæl vertu og takk fyrir fyrirspurnina!

Það er nokkuð algengt að tíðahringurinn breytist aðeins þegar hætt er á pillunni, minnihluti kvenna er með eins nákvæman tíðahring og hann er þegar pillan er tekin. Það fylgir hins vegar ekki sögunni hvort þú hafir haft langan eða óreglulegan tíðahring áður.  Ef þú hefur áhyggjur af tíðahringnum eða ef eitthvað í þinni sögu gæti bent til ófrjósemi, t.d. að þú hafir einhvern tíma greinst með klamydíu-sýkingu eða bólgur í eggjaleiðurum, væri jafnvel gott að fá viðtal og skoðun hjá kvensjúkdómalækni. Reyndu samt að örvænta ekki þó ekkert hafi gerst eftir þrjá mánuði. Það er talið fullkomlega eðlilegt að það taki pör á besta aldri 6-12 mánuði að búa til barn.

Það besta sem þú getur gert til að undirbúa meðgöngu er að lifa almennt heilbrigðu líferni, þ.e. halda þér í kjörþyngd, hreyfa þig, borða holla og fjölbreytta fæðu og taka inn fólínsýru og D-vítamín. Reykingar hafa neikvæð áhrif á frjósemi og algengara er að konur sem reykja missi fóstur. Síðast en ekki síst þarf að tryggja vænan skammt af skemmtilegu kynlífi, helst í kringum egglos! Reynið að finna upp á nýjum og fjölbreyttum æfingum í þeirri list að vera góð við hvort annað. Kynlíf með þann eina tilgang að búa til barn getur fljótt orðið leiðigjarnt. Ef ekkert hefur gerst eftir árið væri ráðlegt að leita til kvensjúkdómalæknis. Með von um að barnatilbúningurinn gangi vel og bestu kveðjur.

Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 27.02.2004.
Yfirfarið í desember 2019


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.