Vökvi úr brjóstum

01.03.2015

Sæl, nú erum við hjónin að reyna við barn nr 3 og höfum verið að því frá því í ágúst í fyrra. Um miðjan þessa mánaðar kom jákvætt egglos próf,  tveimur dögum seinna kom blettablæðing í 3 daga og ca 5dögum eftir jákvæða egglosprófið hef ég verið með stöðuga túrverki og verki í mjóbaki. En ég veit að það getur þýtt hvað sem er (bakverkirnir og túrverkir) en það er sem ég vildi spyrja um er að í gær var ég með einhvern þrýsting í brjóstum og kreisti geirvörtubauginn og það kom gráglær vökvi úr þessum bólum sem eru í kringum geirvörtuna sjálfa!!?? Þetta gerðist á nokkrum stöðum og á báðum brjóstum. Hvað getur það þýtt? Ég veit svosem eftir nokkra daga hvort tekist hefur  að búa til barn en þetta með þennan vökva langar mig að vita hvort ég þurfi að leita til læknis. Börnin sem ég á fyrir var ég ekki með á brjósti eða jú eldri var reynt í viku en yngra barnið var það ekki reynt og þessi börn eru bæði yfir 7 ára gömul svo að ekki getur þetta tengst því að það sé stutt síðan ég var með barn á brjósti býst ég við.Komdu sæl, ég vil byrja á að segja að vökvi úr brjóstum er ekki óalgengur og oftast nær sárasaklaus. Oft gerist þetta rétt fyrir blæðingar. Þar sem þetta er úr báðum brjóstum er ennþá líklegra að þetta sé algjörlega saklaust fyrirbæri. Ég mundi þó ráðleggja þér að leita læknis í rólegheitum til að láta meta þetta endanlega. Gangi þér vel og vonandi færðu jákvætt þungunarpróf fjótlega.
 
Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
1.mars.2015