Þrjú fósturlát

23.09.2004

Ég var að missa fóstur í þriðja sinn núna í síðustu viku. Ég var ekki komin nema 6 vikur núna (var komin 9 vikur og rúmar 12 vikur í hin skiptin) og er að velta því fyrir mér hvort okkur sé óhætt að byrja að reyna strax aftur fyrst ég var komin þetta stutt núna. Blæðingarnar eru hættar hjá mér og ég er nokkuð viss um að allt hafi skilað sér. Einnig er ég að spá í hvort að maður fái ekki að fara í neinar rannsóknir nema að fósturlátin séu þrjú í röð, (við eignuðumst barn eftir fyrsta fósturlátið) og því eru þau „bara“ tvö í röð núna. Þegar ég varð ólétt í þetta skiptið (var á pergotime) að þá fékk ég strax hjá lækninum mínum Klexane sprautur (blóðþynnandi) til að  reyna að koma í veg fyrir fósturlát og ég er að spá í hvort að það lyf hafi getað skemmt eitthvað fyrir mér því núna fór að blæða hjá mér en gerði það ekki í hin tvö skiptin. Ég get því miður ekki spurt minn lækni út í þetta strax því hann er í fríi og kemur ekki til baka fyrr en eftir viku.

..........................................................................


Sæl vertu og takk fyrir fyrirspurnina.

Leitt er að heyra um fósturlátin þín og ég vona að þú þurfir ekki að upplifa slíkt aftur.  Flestar heimildir tala um að gott sé að bíða einn tíðahring áður en maður byrjar að reyna aftur þannig að legið nái alveg að jafna sig.  Hins vegar veit ég til að meðgöngur hafi gengið vel þó svo konan hafi orðið ófrísk strax eftir fósturlát en líklega er vissara að bíða.  Ég tel ekki mjög líklegt að gerðar verði miklar rannsóknir vegna fósturlátanna þinna en þó ætla ég ekki að útiloka neitt fyrir hönd læknisins þíns því ég veit ekki hvaða viðmið hann notar.  Það verður að segjast eins og er að í raun er afskaplega fáar rannsóknir sem hægt er að gera og sjaldgæft að mikið komi út úr þeim, sjaldnast eitthvað sem færir manni töfralausnir. Ég verð að viðurkenna að meðferð með blóðþynningarlyfinu Klexane til að koma í veg fyrir fósturlát þekki ég ekki svo ég bið þig að bíða eftir svörum frá lækninum þínum, þó svo vika virðist taka heila eilífð.  Mér finnst það samt hljóma eins og mótsögn að lyf sem er notað til að minnka líkur á fósturláti geti aukið líkur á eða valdið því.

Með von um að þú fáir svör við spurningunum þínum og að næsta meðganga verði áfallalaus.

Bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. september, 2004.