Þungun eftir fósturlát...

29.01.2004

...ég er 28 ára og hef grun um að ég sé ófrísk, búin að vera að reyna eftir að ég missti fóstur í júlí s.l. Ég er komin 2 daga framyfir en þungunarpróf er neikvætt. Hef í hyggju að taka annað próf eftir 3 daga en ég er samt með nokkra tíðaverki og finnst alveg að ég gæti verið að
byrja á blæðingum. Svo er ég líka pínu kvíðin af því að ég hef heyrt að það séu meiri líkur á fósturláti hafi maður misst áður. Þarf ég að hafa áhyggjur af þessum verkjum eða er þetta eðlilegt? Er það rétt að líkurnar á fósturláti séu meiri eftir að maður hefur misst?

...................................................................................................................................................

Þungunarpróf sem maður kaupir út í búð í dag eru mjög næm, jafnvel svona snemma, svo ég verð að segja að mér þykir ólíklegt að ástæðan fyrir seinkun blæðinganna nú sé að þú sért þunguð.  Það er þó til að þau geti gefið falskt neikvæða svörun og því er skynsamlegt af þér að ætla að endurtaka prófið eftir nokkra daga.  Það er erfitt að meta hvort þessir verkir sem þú ert að finna fyrir geti haft með þungun að gera.  Sumar konur upplifa byrjandi meðgöngu ekki ólíka því að vera að byrja á blæðingum.  En ég skil vel áhyggjur þínar af að hugsanlega gætir þú verið að missa fóstur aftur.  Ég get reynt að hugga þig með því að segja þér að líkur á að missa fóstur í næstu meðgöngu, hafi maður misst fóstur einu sinni, aukast mjög lítið.  Margir vilja meina að maður eigi sömu möguleika og hver önnur kona þó maður hafi misst fóstur einu sinni.  Jafnvel þó maður hafi misst fóstur þrisvar í röð á maður samt um 75% líkur á að ganga með og eignast heilbrigt barn.  Gangi þér vel!

Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 29, janúar 2004.