Þungun eftir fósturmissi

12.05.2005

Mig langar að fá upplýsingar um það hvort mælt sé með því sérstaklega að beðið sé eftir að verða þunguð aftur, eftir að fósturlát var sett af stað með fæðingu á 15. viku meðgöngu? Ef mælt er með að bíða, hversu lengi þá og hver er ástæðan fyrir biðinni? Einnig langar mig til þess að vita hvenær ég get átt von á fyrstu blæðingum á eftir.

.....................................................................

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina!

Leitt að heyra um fósturmissinn þinn, ég vona að þú náir að jafna þig fljótt, andlega sem líkamlega. Heimildir sem ég hef undir höndum mæla frekar með að beðið sé í a.m.k. þrjá mánuði með að reyna þungun aftur þó sumar telji nægilegt að bíða eftir fyrstu blæðingunum, sérstaklega þegar fósturlátið er snemma á meðgöngunni. Legið byrjar fljótt að stækka við þungunina, fyrir meðgöngu er það 80-120g en fer upp í u.þ.b. 1000g í fullri meðgöngu, það tekur legið tima að komast í upprunalegt horf og talið er að það minnki líkur á öðru fósturláti að bíða.  Það er svolítið misjafnt hvenær fyrstu blæðingarnar koma en oftast gerist það 4-6 vikum eftir fósturlátið, það getur þó tekið lengri tíma eftir því sem lengra var komið í meðgöngu þegar fósturlátið varð.  Ef blæðingarnar eru ekki farnar að láta á sér kræla innan þriggja mánaða er ástæða til að láta athuga málið og auðvitað fyrr ef þú hefur áhyggjur af þessu. Með von um gott gengi.

Bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
12. maí 2005.