Spurt og svarað

29. janúar 2004

Þungun eftir utanlegsfóstur...

Ég missti fóstur núna í desember en það var utanlegsfóstur og var það fjarlægt með speglun og annar eggjaleiðarinn tekinn í leiðinni. Læknirinn sagði mér að þetta minnkaði líkur mínar á því að verða ólétt bara um svona u.þ.b. 30 % en ég er samt með áhyggjur því að við höfum verið að reyna (svona hálfpartinn, ekkert stress) í svona tvö ár. Læknirinn sagði líka að ein af ástæðunum fyrir utanlegsfóstri væri oft vegna sýkingar í eggjaleiðurum eftir klamydíu sýkingu, en ég var prófuð við því fyrir næstum þremur árum þegar ég lenti í því að fá blöðru á eggjastokk og var það þá neikvætt og ég hef verið með sama manninum í rúm 3 ár. Er einhver hætta á því að svona próf geti gefið vitlausa niðurstöðu? Veit ekki hvort þeir testuðu mig aftur þegar ég fór í aðgerðina núna.

Annað mál: ég er 23 ára núna, minnka líkur mínar ekki með aldrinum, er ekki betra fyrir mig að reyna að verða ófrísk sem fyrst? Mig langar líka til að eiga fleiri en eitt barn!

Ég vil byrja á að segja að mér þykir leitt að heyra af fósturmissinum þínum og skil vel að þú hafir áhyggjur af framtíðarbarneignum. Það er satt sem læknirinn þinn segir að þú átt samt sem áður góða möguleika á að verða ófrísk þrátt fyrir að hafa aðeins einn eggjaleiðara.  

Klamydíusýkingar valda oft bólgum í eggjaleiðurum, jafnvel án þess að maður verði þeirra vör. Ónæmiskerfi líkamans getur e.t.v. drepið niður sýkinguna en oft á tíðum skilur hún eftir sig skemmdir og örmyndun í vefjum eggjaleiðaranna. Utanlegsfóstur eru algengari hjá konum sem fengið hafa slíkar sýkingar vegna þess að sæðið er miklu minni en eggfruman og nær e.t.v. að komast fram hjá slíkum hindrunum og frjóvga eggið í efsta hluta eggjaleiðarans en síðan er frjóvgaða eggið (fósturvísirinn) of stórt til að komast leiðar sinnar niður í slímhúð legsins og tekur sér því bólfestu í eggjaleiðaranum þar sem það hefur í raun enga möguleika á að vaxa og verða að barni. Þannig getur sýking sem maður fékk fyrir mörgum árum, og vissi kannski ekkert um, haft áhrif á getu manns til að eiga börn í framtíðinni. Þó sýnið sem var tekið fyrir þremur árum hafi verið neikvætt útilokar það ekki að þú hafir einhvern tíma fengið sýkingu. Klamydía er algengasti orsakavaldurinn en til eru aðrir sýklar sem geta valdið viðlíka skemmdum. Til að hafa allt á hreinu þá held ég að það væri gott að þú fengir upplýsingar um hvort sýni hafi verið tekið í kringum aðgerðina, næst þegar þú átt erindi til læknisins þíns. 

Það er rétt hjá þér að þú ert á því æviskeiði sem konur eru hvað frjóastar svo líffræðilega séð eru möguleikar þínir bestir nú. Reyndu samt að taka þér nægan tíma til að jafna þig, andlega og líkamlega. Svona áföll geta snúið tilverunni á hvolf og það er gott að gefa sér svolítinn tíma til að snúa henni við aftur. Gangi þér vel!

Inga Vala Jónsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, 29. janúar 2004

Yfirfarið í desember 2019

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.