Engin tilhlökkun

16.12.2008

Sælar!

Ég veit ekki hvernig ég get komið þessu frá mér. Málið er að ég er ófrísk af mínu þriðja barni og finn ekki fyrir neinu. Engum tilfinningum og það versnar bara eftir sem líður á meðgönguna. Ég talaði við ljósmóður sem kom mér til sálfræðings, en mér finnst hann bara ekki gera neitt gagn. Ég á tíma hjá honum fljótlega aftur og hreinlega langar ekki. Finnst hann horfa voðalega asnalega á mig og svo finnst mér bara asnalegt að þurfa að ræða þessi mál við mann sem getur ekki gefið mér nein svör. Ég nenni þessu ekki lengur. Er komin 30 vikur og íhuga á hverjum degi hvort ég geti ekki bara gefið barnið. Langar bara slétt ekkert í þetta og gjörsamlega HATA tilhugsunina að fæða það. Finnst það tilgangslaust og bý þar að suki við mjög ótrygga fæðingarhjálp og þarf að leita út fyrir sveitarfélagið til að fæða og jafnvel fjórðunginn. Finnst það drulluósanngjarnt líka þar sem ég þarf að skilja tvö börn eftir heima í einhvern tíma. Ég hef mestar áhyggjur að fá í hendurnar barn sem ég þoli ekki og þurfa að lifa við það. Ég veit að þetta er illa sagt, ég bara ræð ekki við þetta lengur.

Kveðja, Óspennt.


Sæl!

Mikið er leiðinlegt að heyra hvað þér líður illa. Það er margt sem kemur ekki fram í þinni sögu s.s aðstæður þína og hvernig fyrri fæðingar hafa gengið o.s.frv. og því erfitt að gera sér grein fyrir ýmsum þáttum. Þú ert greinilega í sambandi við ljósmóður þína fyrst hún er búin að útvega þér viðtal við sálfræðing. Spurning væri hvort þú gætir ekki rætt betur við hana um þín mál ef þú treystir henni vel. Einnig finnst mér að þú verðir að gefa sálfræðingnum meira tækifæri, það tekur stundum smá tíma að kafa ofan í erfið mál. Ef þetta er ekki að gera sig þá verð ég að benda þér á að reyna að komast í samband við geðlækni en ljósmóðir eða læknir gætu haft milligöngu þar um. Það er greinilega margt sem angrar þig og vona ég svo innilega að þú finnir ljós í myrkrinu en það gerist að vísu ekki á einum degi og þú verður að leggja vinnu í þetta sjálf en auðvitað með eins góðri hjálp og völ er á. Varðandi fæðingarstað þá er þetta erfitt þegar konur þurfa að fara að heiman til að fæða en hægt er að fá íbúð á viðkomandi stað og reyna að plana þetta þannig að minnst reyni á fjölskylduna og svo auðvitað ef vel gengur þá er hægt að fara mjög fljótt heim.

Með von um bjartari tíð.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. desember 2008.