Spurt og svarað

08. janúar 2006

?Brjóstapillan?, ?hvíld? brjósta o.fl.

Hæ, hæ!

Ég á 8 vikna gamla stelpu og var hjá kvensjúkdómalækni í dag í eftirskoðun og fékk hjá honum brjóstapilluna. Ég gleymdi að spyrja hann hversu lengi ég þarf að taka hana þar til ég get hætt að nota aðrar getnaðarvarnir. Ég hef ekki fengið neinar blæðingar aðrar en hreinsunina. Ég var að reyna að flétta þessu upp hérna hjá ykkur og rakst þá á að brjóstapillan gæti minnkað mjólkurframleiðsluna. Ég hef verið í vandræðum með mjólkina bæði kom hún seint og virðist ekki vera næg (stelpan þyngdist einungis um 50 gr. milli viku 5 og 6 en hefur verið að þyngjast um u.þ.b. 150 gr. á viku eftir að ég bauð henni ábót á kvöldin u.þ.b. 20-80 ml. Ég þori því varla að fara að byrja að taka pillu sem getur minnkað mjólkurframleiðsluna. Og annað, barnalæknirinn sagði að ef ég léti ekki hvort brjóstið hvílast í a.m.k. 2 klukkustundir á milli gjafa myndi það geta minnkað mjólkurframleiðsluna og ég hef því ekki viljað leyfa henni að hanga á brjóstinu en þetta ráð virðist vera öfugt við öll þau ráð sem ég les hjá ykkur og brjóstagjafaráðgjafar hafa gefið mér þannig að ég veit ekki hverju ég á að trúa.

Kveðja, Ein ringluð.

..............................................................................................


Sæl og blessuð!

Það er trúlegt að þú þurfir að taka pilluna í mánuð áður en hún telst örugg. Varðandi minnkaða mjólkurmyndun þá virkar það svoleiðis hjá sumum en ekki öðrum. Það er alls ekki víst að það virki þannig hjá þér og það skiptir ekki máli hvort fyrir er mikil eða lítil mjólk. Mér finnst þetta hljóma sem þú sért með næga mjólk en gætir þurft að gefa aukagjöf (gjafir) á kvöldin og sleppa ábótinni.

Já, það hefur ruglað þig að heyra þetta ráð hjá barnalækninum sem von er. En það er afar ólíklegt að þú heyrir það nokkurs staðar annars staðar svo það þarf ekki að rugla þig meira. Barnalæknar eru sérfræðingar í börnum á öllum aldri og sérstaklega í sjúkdómum barna. Brjóst eru ekki líffæri sem þarfnast hvíldar. Þvert á móti framleiða þau mest þegar þau eru mest örvuð og mest tekið úr þeim. Mæður tvíbura og þríbura framleiða tvöfalt og þrefalt meira en mæður einbura og í gamla daga voru til svokallaðar brjóstmæður sem höfðu allt að 6 börn á brjósti í einu. Þegar farið er að leggja áherslu á „hvíld“ brjósta leiðir það einmitt fljótlega til minnkaðrar mjólkurmyndunar vegna vanörvunar. Þér er alveg óhætt að trúa því. Þú þarft ekki annað en að líta í nýlegar bækur um brjóstagjöf eða skoða vandaðar brjóstagjafasíður á netinu.

Með bestu óskum um gott áframhald brjóstagjafar,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.