Blæðingar á Cerazette pillunni

27.10.2005
Mig langar til að forvitnast um hvort það sé eðlilegt að vera ekki búin að hafa neinar blæðingar eftir fæðinguna? Ég var að eignast barn númer tvö fyrir 4 mánuðum, er að taka Cerazette pilluna en hef engar blæðingar haft.  Er þetta eitthvað sem ég þarf að nefna við lækninn minn eða hvað? Einnig stendur í leiðbeiningum með Cerazette pillunni að maður eigi að taka spjöldin hvert á eftir öðru en ekki taka pásu. Var áður á Triqular pillunni og þar var alltaf tekin pilla í þrjár vikur og pása í eina.
Með von um skjót svör
 
............................................................
 
Komdu sæl og til hamingju með barnið.
 
Já það er alveg eðlilegt að vera ekki byrjuð á blæðingum eftir fæðinguna.  Cerazette pillan getur valdið þessu en þetta getur líka verið vegna brjóstagjafar ef þú ert með barnið á brjósti eða sambland af þessu tvennu.  Þetta er alveg eðlilegt og ekkert til að hafa áhyggjur af og það er rétt að þú átt ekki að taka hlé á þessari pillu eins og á samsettu pillunni.
 
Kveðja
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
27.10.2005.