Spurt og svarað

20. júní 2005

Brjóstapillan og minnkandi mjólk

Barnið mitt léttist á milli sex vikna skoðunar og níu vikna. Í ljós kom að hann fékk ekki nóg (var einvörðungu á brjósti) en hafði fengið nóg áður og þyngst eðlilega. Á þessu tímabili hafði ég byrjað að taka brjóstapilluna og byrjaði að blæða hjá mér fljótlega eftir það. Ég hætti því að taka pilluna og ætla mér ekki að taka hana framar. Er mér sagt að þetta geti hafa orsakað það að mjólkin nánast hvarf hjá mér eða minnkaði alla vega. Ég hef í viku gefið honum þurrmjólk með í gegnum hjálparbrjóst og gengur það ágætlega. Hins vegar veit ég hreinlega ekki hvort mjólkin hafi aukist á ný hjá mér. Ég hef reynt að mjólka mig og þá kemur nánast ekki neitt sem er ekki uppörvandi. Ef ég gef honum bara brjóstið þá kvartar hann þannig að ég er alltaf mjög fljót að setja rennslið úr hjálparbrjóstinu. Mín spurning er sú - eru einhverjar líkur á því að mjólkin aukist á ný hjá mér og hvað  á ég að gefa þessu langan tíma? Er alveg til í að leggja talsvert á mig til þess að koma þessu í lag aftur. Eins hvort þið kannist við þetta vandamál með brjóstapilluna. Ef ég hefði vitað af því þá hefði ég aldrei byrjað að taka hana.

............................................................................

Sæl og blessuð.

Það eru oft svolítil tímamót í brjóstagjöf þegar að börn verða 3ja mánaða og þá kemur stundum í bakið á manni ef hefur vantað upp á örvun á allra fyrstu dögunum, en það á alveg að vera hægt að laga það með smá vinnu. Mér finnst reyndar svolítið harkalegt að fella dóm eftir eina vigtun sem ekki sýnir góða þyngdaraukningu. Brjóstabörn eru mjög sveiflukennd í þyngdaraukningu og vaninn er að gefa þeim annan séns. Ásamt með góðum ráðum um betri brjóstagjöf að sjálfsögðu. Brjóstapillan hefur ekki verið til að bæta ástandið hjá þér. Flestar konur finna engan mun þótt þær fari að taka hana inn en sumar finna fyrir minnkun á mjólkurframleiðslu. Einstaka kona finnur það mikinn mun að hún getur alls ekki verið á neinni pillutegund og verður að nota eitthvað annað. En þú skalt drífa í að reyna að ná mjólkurframleiðslunni upp aftur. Það þýðir bara örvun, örvun og meiri örvun. Láttu barnið sjúga eins oft og mikið og þú mögulega getur fengið það til að gera. Þú getur þurft að gera þetta í 3-5 daga og þú gerir þér grein fyrir því að þú gerir voða lítið annað þá dagana. Best er að skipta sem oftast um brjóst í gjöfinni og aðal markmið þitt ætti að vera margar gjafir en ekki endilega langar. Það kemur seinna. Jafnframt þessu þarftu að takmarka alla ábót á meðan eins og þú mögulega getur. Brjóstin bregðast tiltölulega fljótt við svo rösklegri örvun og eins og ég segi þá tekur það yfirleitt ekki nema nokkra daga. Þyngdaraukning ætti þá að fara í u.þ.b. 85 gr. á viku að lágmarki.

Vona að þú eigir ánægjulega brjóstagjöf framundan,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. júní 2005.

Ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt getur brjóstagjöf veitt góða vörn gegn getnaði (þessi skilyrði eru ekki til staðar hér). En ef einher er að lesa þetta og vil fræðast um brjóstagjöf sem getnaðarvörn þá er hægt að lesa allt um það hér!

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.