Spurt og svarað

22. september 2010

Egglos og brjóstapillan

Mig langaði að byrja á því að þakka fyrir alveg hreint frábæran vef!

Ég er með tvær spurningar. Hversu löngu frá fæðingu má búast við að egglos verði?  Þ.e. miðað við að vera með barn á brjósti. Og hversu fljótt er brjóstapillan örugg? Við hjónin stunduðum kynlíf 4 vikum eftir fæðingu dóttur okkar og ég tók pilluna strax EFTIR kynlífið.. Hafði það nokkur áhrif ef egglos hafði orðið?  Ég var með dóttur mína á brjósti en við 4 vikna var hún byrjuð að sofa frá 11 - 7 án þess að drekka, gæti það haft áhrif á egglos? Hún er að verða 4 mán í dag og ég er með endalausar áhyggjur að ég sé orðin aftur ólétt, finnst ég svo oft finna "hreyfingar", ég vil taka það fram að ég hef tekið pilluna mjög samviskusamlega, alltaf á sama tíma.  Seinni spurningin mín varðar brjóstapilluna, ég las einhverstaðar hér á vefnum að ef hún henti manni þá er í lagi að vera áfram á pillunni án þess að vera með barn á brjósti og samt sé hún örugg, getur það verið?

Með fyrirfram þökk

Árdís


Sæl Árdís.

Það er misjafnt hversu fljótt egglos verður eftir fæðingu en rannsóknir hafa sýnt að flestar konur hafa egglos og byrja á blæðingum innan 3ja mánaða frá fæðingu barns. Pillan er u.þ.b. viku að verða örugg eftir að þú byrjar að taka hana.  Brjóstagjöfin sem getnaðarvörn er auðvitað ekki örugg ef barnið sefur svona mikið eins og þú lýsir.  Ef þú ert hrædd um að þú sért ólétt ættir þú að taka þungunarpróf og fá úr því skorið.

Það er rétt að brjóstapillan er líka örugg þó kona sé ekki með barn á brjósti og hentar því jafnvel og aðrar piilur í framhaldinu.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
22. september 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.