Einkenni frá lykkjunni

08.12.2008

Komiði sælar.

Mig vantar smá aðstoð og ætla því að prófa að senda ykkur fyrirspurn með von um góð svör:) Þannig er mál með vexti að ég eignaðist stúlku í byrjun Júlí og var hreinsunin, að ég held, eðlileg - tók í kringum 6 vikur að klárast.  Þegar átta vikur voru liðnar fór ég í eftirskoðun og fékk hormónalykkjuna. Mér var sagt frá ýmsum aukaverkunum sem hún gæti haft í för með sér.  Þegar lykkjan var sett upp var ég með helling af túrverkjum í einhverja daga á eftir og blæðingar alveg upp í einn og hálfan mánuð. núna eru tveir mánuðir liðnir og það kemur stundum bleik útferð en nær alltaf glær útferð með smá lykt, er það eitthvað tengt hormónalykkjunni eða getur verið að um einhverskonar sýkingu sé að ræða?  Ég held samt að lyktin sé ekki það slæm (engin úldin fiskilykt:/) og þar sem útferðin er glær, að þetta sé ekki sýking - en eykst útferð mikið á þessari lykkju?  Og svo eitt enn, er eðlilegt að vera nær alltaf með túrverki, meira að segja svolítið slæma?  Ég þarf stundum að taka paracetamol til að slá á verkina?  Getur verið að þessi lykkja sé bara að fara illa í mig eða eru þetta bara byrjunarörðugleikar?

Með þökk fyrir góðan vef, kærar kveðjur frá mér =)


Komdu sæl

Sennilega eru þetta nú byrjunarörðugleikar þar sem ekki eru liðnir nema tveir mánuðir síðan lykkjan var sett upp.  Óreglulegar blæðingar geta fylgt lykkjunni sérstaklega í byrjun.  Útferðin getur líka skýrst af þessu en ef lyktin versnar eða útferðin verður grængul á litinn ættir þú að tala við lækninn þinn því það bendir til sýkingar.  Túrverkir geta líka verið slæmir með lykkjunni (þú ert að tala um túrverki þegar þú ert á túr en ekki þess á milli, er það ekki?).  Þú ættir kannski að sjá aðeins til og gefa þessu aðeins lengri tíma, ef þér finnst þetta ekki vera að virka þá skaltu endilega tala við lækninn þinn.

Gangi þér vel, kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
8. desember 2008.