Spurt og svarað

25. desember 2004

Getnaðarvarnasprautan og blæðingar

Ég er búin að vera á sprautunni núna í 5 og hálfan mánuð, sem sagt verið sprautuð 2 sinnum. Tæpum mánuði eftir að ég fékk fyrri sprautuna (ágúst) byrjaði ég á blæðingum og þær stóðu yfir í 2 vikur. Svo leið einn og hálfur mánuður (sept) og ég byrjaði aftur á blæðingum en í þetta skiptið
stóðu þær yfir í 3 vikur. Seinni sprautuna fékk ég svo í byrjun október og byrjaði svo aftur á blæðingum 14. nóvember og er ég ennþá á blæðingum, sem sagt 4 vikur og 4 dagar.

Er þetta algengt? Mun þetta halda svona áfram ef ég læt sprauta mig áfram?  Á ég kannski að leita aðstoðar hjá lækni? Hvað get ég gert?

Með von um skjót svör (nenni ekki alveg að vera endalaust á blæðingum).

....................................................................


Komdu sæl og þakka þér fyrir að senda okkur fyrirspurn.

Ég skil þig mjög vel að þú sért orðin þreytt á ástandinu.  Það er ekki hægt að vera á endalausum blæðingum, það dregur úr þér alla orku og gerir þig pirraða.  Ég myndi halda að þetta væri ekki eðlilegar aukaverkanir.  Reyndar er það þannig þegar um er að ræða getnaðarvarnarsprautuna þá sitja konur uppi með þær aukaverkanir alveg í þrjá mánuði eða meðan að áhrif sprautunnar gætir.  Milli blæðingar bæði af pillunni og getnaðarvarnarsprautunni eru vel þekktar og nokkuð algengar.  Ég myndi halda að þessi getnaðarvörn henti þér ekki. Ég get reyndar ekki fullyrt neitt um það en ég ráðlegg þér að hafa samband annað hvort við þinn heimilslækni eða jafnvel kvensjúkdómalækni. Kannski er einhver önnur getnaðarvörn sem henntar þér betur.

Með von um að ástandið batni.  Gleðileg jól og gangi þér vel.

Kveðja,

Málfríður Þórðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. desember 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.