Getnaðarvarnir eftir fæðingu

26.11.2009

Sæl og takk fyrir góðan og hagnýtan vef :)

Það eru núna rúmlega 5 vikur síðan ég átti og ég er farin að huga að getnaðarvörnum þar sem það fer að líða að því að við hjónin getum haft samlíf á ný.  Ég vil ekki fara á pilluna þar sem að mér gengur mjög ílla að taka hana... en hvaða getnaðarvörnum er helst mælt með? Ég hef áður prufað Nuva ring og fannst það fínt, en í lagi að vera á honum með barn á brjósti? Svo er önnur spurning... ef maður byrjar á hormónatengdum getnaðarvörnum byrjar þá maður ekki á túr aftur?  Eins og t.d með pilluna þá startar hún blæðingum á milli spjalda! Eða er þetta bara rugl í mér?

 


 

Komdu sæl. 

Þú getur ekki tekið samsetta pillu með barn á brjósti þannig að venjuleg pilla kemur ekki til greina.  Brjóstapillan eða pilla sem er bara með einu hormóni getur þú tekið (ef þú vilt).  Á henni er ekki tekið hlé og aukaverkun eru óreglulegar blæðingar í fyrstu sem hætta svo alveg.  Það þarf hinsvegar að taka hana á sama tíma daglega, alla daga.

Aðrar getnaðarvarnir eru lykkjan sem þú ættir að geta fengið um 6 vikum eftir fæðingu og er sett upp af kvensjúkdómalækni.   Hormónasprautan kemur líka til greina en þá færðu sprautu með Progesteroni sem virkar í 3 mánuði, þá þarftu að fá aðra.  Hormónastafurinn, 4 sm langur stafur sem komið er fyrir í upphandlegg konu og virkar í 3 ár.

Síðast en ekki síst er svo smokkurinn.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
26. nóvember 2009.