Spurt og svarað

20. júní 2007

Getnaðarvarnir eftir missi

Sæl
Ég missti fóstur fyrir skömmu síðan og var gengin tæpar 8 vikur. Ég ætlaði mér ekki að fara strax út í barneignir þar sem ég var að byrja í háskólanámi. Eftir að hafa jafnað mig á missinum vantar mig upplýsingar um getnaðarvarnir.  Er einhver ein betri en önnur?  Þarf að líða einhver ákveðinn tími frá missi og þar til að t.d. hormónastafurinn er settur upp?
Takk fyrir :) Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það eru ýmsar getnaðarvarnir á markaðnum.  Það veltur svo á þér hvað þú getur hugsað þér að nota.  Pillan stendur alltaf fyrir sínu, er um 99% örugg ef hún er tekin rétt.  Hún kemur í veg fyrir egglos og gerir slím í leghásli þykkara og breytir legslímhúð sem gerir frjóvgun og þungun ólíklegri.  Hormónastafurinn gefur frá sér eitt hormón, pogesteron sem hindrar egglos og gerir líka leghálsslímið seigara.  Hormónasprautan virkar mjög svipað og stafurinn og er gefin á 3 mánaða fresti.  Hormónahringurinn er settur upp í leggöngin og hafður þar í 3 vikur en er þá tekin og gert viku hlé.  Mesta öryggi er 99%.  Hann inniheldur bæði estrogen og progesteron en skammturinn sem losnar á dag er mun minni en t.d í pillunni.  Hann virkar eins og pillan, hindrar egglos og breytir slímhúð í legi og leghálsi.  Konan setur hringinn upp sjálf í lok tíðablæðinga.

Lykkjurnar eru hentugastar fyrir konur sem hafa átt börn þannig að ég tala ekkert um þær hér og svo er það alltaf smokkurinn sem kemur til greina og er líka örugg getnaðarvörn.

Þú þarft ekki að bíða neinn ákveðinn tíma eftir því að byrja að nota getnaðarvarnir nema þá eftir næstu blæðingum. 

Nánari upplýsingar getur þú fengið hjá lækninum þínum og í bæklingum sem liggja frammi á heilsugæslustöðvum og sumum apótekum.

Vona að þetta hafi svarað spurningu þinni.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
20. júní 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.