Spurt og svarað

04. maí 2007

Getnaðarvarnir með barn á brjósti

Sælar og takk fyrir góða síðu :)

Mig langar að spyrja ykkur ráða varðandi getnaðarvarnir. Þannig er að ég er nýbúin að eignast mitt annað barn á innan við tveimur árum og vil helst ekki verða ólétt aftur alveg á næstunni. Ég er bara alveg ráðalaus varðandi getnaðarvarnir. Yngra barnið mitt er "lykkjubarn" og þó að ég sé hæstánægð með að hafa átt barnið legg ég ekki í aðra meðgöngu alveg á næstunni.

Ég stefni að því að hafa barnið á brjósti til 2 ára og því er þessi venjulega getnaðarvarnarpilla ekki möguleiki fyrir mig. Lykkjan hefur verið sett upp tvisvar hjá mér og í bæði skiptin færðist hún niður í leghálsinn og hætti því að gera gagn. Áður en ég varð ólétt af eldra barninu mínu prófaði ég "brjóstapilluna" en ég hætti að taka hana eftir að hafa verið stanslaust á blæðingum í 6 vikur. Þess vegna er ég ekki sérlega spennt
fyrir því að prófa hana aftur. Gafst ég of snemma upp?

Ég fékk mjög slæma grindargliðnun á seinni meðgöngunni og ég get ekki hugsað mér að verða ólétt aftur alveg strax, vil helst vera viss um að ekkert barn komi undir næstu 4 árin eða svo. Hvaða getnaðarvörn get ég verið viss um að virki, án þess að hún hafi áhrif á brjóstagjöfina?


Komdu sæl.
 
Ég skil ekki alveg af hverju þú segir að þessi venjulega brjóstapilla sé ekki fyrir þig.  Konur geta notað hana eins lengi og þær vilja og er t.d. mælt með að konur yfir 35 ára noti hana frekar en aðrar algjörlega óháð brjóstagjöf.  Hún er því valkostur fyrir þig.  Fyrstu mánuðina á Cerazette pillunni geta blæðingar verið óreglulegar, mislangar og mislangt á milli þeirra en oft hverfa þær svo alveg.  Ég held að þú hafir hætt of snemma á henni síðast.  Annar valkostur er getnaðarvarnasprautan en þá er einu hormóni sprautað (Progesteron) í vöðva sem frásogast svo hægt frá stungustaðnum á 3ja mánaða tímabili en þá þarf að sprauta aftur.   Fyrir utan þessar getnaðarvarnir eru svo lykkjan sem þú þekkir og hettan sem er smeygt langt inn í leggöngin fyrir samfarir.  Með sæðisdrepandi kremi er öryggi hennar um 94% ef hún er rétt notuð.  Smokkurinn er svo að sjálfsögðu líka valkostur.
 
Vona að þetta hjálpi eitthvað.
Kveðja
 
Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
4. apríl 2007.
 
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.