Spurt og svarað

26. nóvember 2007

Getnaðarvarnir með barn á brjósti

Sælar!

Mig langaði voðalega að spyrja um getnaðarvarnir eftir fæðingu... Ég átti dreng sem er núna ný orðinn 2 mánaða og hann er á brjósti og ábót (SMA).  Ég vil gjarnan byrja á einhverri getnaðarvörn en veit ekki hvað maður á að velja?  Ég var á NuevaRing fyrir meðgönguna og var mjög ánægð með hann, en má maður nota hann með barnið á brjósti? Þar sem þetta eiga að vera staðbundnir hormónar, ekki eins og pillan sem fer út í blóðrásina.  Svo er ég líka eitthvað svolítið smeyk við Lykkjuna, en það er kannski bara út af því að ég hef heyrt lítið um hana. Ég vil líka ekki hætta á blæðingum (sem lykkjan á að gera) því að ég vil ekki að það verði eitthvað mikið mál þegar okkur langar í annað barn.

Svo er það brjóstapillan... eru ekki miklar aukaverkanir af henni?  Hvað er það sem þið mælið með? Er ekki alveg tilbúin í aðra meðgöngu strax;)

Takk kærlega fyrir nauðsynlegann vef!


Komdu sæl.

Það er erfitt að mæla með einhverju sérstöku þar sem það er svo einstaklingsbundið hvað hentar hverri og einni konu.  Hormónahringurinn hentar ekki á meðan þú ert með drenginn á brjósti þar sem hann inniheldur bæði estrógen og prógesterónon. 

Brjóstapillan inniheldur bara prógesterón og er örugg getnaðarvörn ef hún er rétt tekin þ.e. á sama tíma á hverjum degi (má skeika 3 klst).  Ekki er tekið hlé.  Blæðingar geta minnkað, orðið óreglulegar eða hætt. Hugsanleg vörn gegn krabbameini í legi og eggjastokkum.  Aukaverkanir eru vægar og helstar eru þyngdaraukning, brjóstaspenna, bólur og höfuðverkur. 

Lykkjan er hentug konum sem hafa átt barn og er bæði hægt að fá hormónalykkju eða koparlykkju sem er þá bara staðbundin verkun og engin hormónaáhrif.  Hormónalykkjan gefur frá sér prógesterón og er líka mjög örugg getnaðarvörn.  Hún virkar þannig að hún kemur í veg fyrir frjósvgun og hindrar að frjósvgað egg festist í leginu.  Lykkjan byrjar strax að virka eftir að hú er sett upp og má nota í allt að 5 ár.  Blæðingar geta minnkað eða hætt meðan á notkun stendur.  Fyrst eru þó oft óreglulegar blæðingar.  Aðrar aukaverkanir geta verið höfuðverkur, skapbreytingar, brjóstaspenna og bólur.  Einnig getur lykkjan færst úr stað og því er gott að þreyfa eftir henni reglulega.

Koparlykkjan er svipuð nema engin hormónaáhrif verða af henni.  Hún kemur í veg fyrir að sáðfrumur nái að frjóvga egg og kemur líka í veg fyrir að frjóvgað egg festist í leginu.  Svona lykkju má nota í 3 - 7 ár eftir því hvaða gerð er valin.  Áhrif þessarar lykkju hverfa um leið og hún er fjarlægð úr leginu.  Blæðingar verða oft meiri með svona lykkju, hún getur líka færst úr stað og konur geta verið næmari fyrir sýkingum.  Gott er að fylgjast með hvort hún er á réttum stað með því að þreifa eftir þráðunum sem liggja niður í leggöngin (þú finnur ekkert fyrir þeim).

Hormónasprautan er líka hentug með barn á brjósti en hún inniheldur bara prógesterón.  Sprautað er í vöðva á 3 mánaða fresti og sogast efnið þaðan hægt inn í líkamann.  Sprautan kemur í veg fyrir egglos, slím í leghálsinum þykknar þannig að sáðfrumur eiga erfiðara með að komast upp og svo hindrar hún líka að frjóvgað egg festist í leginu.  Mjög örugg getnaðarvorn líka.  Blæðingar minnka yfirleitt og geta hætt.  Helstu aukaverkanir eru að blæðingar verða óreglulegar í fyrstu, þyngdaraukning, höfuðverkur, bólur, brjóstaspenna og skapsveiflur.  Nokkrir mánuðir geta liðið eftir að hætt er að nota sprautuna þar til blæðingar verða aftur reglulegar.

Eins og þú sérð eru svipaðar aukaverkanir af þessu öllu en misjafn er hversu konur eru næmar fyrir þeim.  Þegar hætt er að nota hormónagetnaðarvörn getur það tekið líkamann einhvern tíma að komast á rétt ról aftur en konur geta orðið þungaðar strax eftir að notkun er hætt.

Vona að þetta svari spurningu þinni að einhverju leiti.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
26.11.2007. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.